Gunnar Nelson í fantaformi

Gunnar Nelson er í fantaformi.
Gunnar Nelson er í fantaformi. Twitter Gunnars Nelson

Gunnar Nelson er greinilega í fantaformi fyrir bardaga hans gegn Brandon Thatch á laugardaginn. Bardaginn byrjar reyndar ekki fyrr en aðfaranótt sunnudags að íslenskum tíma og stígur Gunnar að öllum líkindum ekki í búrið fyrr en í fyrsta lagi klukkan 02:00.

Frétt mbl.is: „Planið hans örugglega að rota Gunna“

Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis, er með Gunnari og félögum í Vegas. Þeir dvelja þar í 1.100 fermetra húsi, sem UFC hefur látið þeim í té.

Hann segir stemninguna í hópnum góða. Gunnar æfir einu sinni á dag, en þess á milli er lífinu tekið með ró, legið í sólinni og borðað steikur. Conor McGregor er í Vegas ásamt Gunnari, en hann berst í aðalbardaganum sama kvöld og Gunnar berst. Jón Viðar segir Conor hafa verið á ferðalagi, en honum gangi vel að skera niður þyngd og sé góður á því.

Í kvöld verður síðasta „harða“ æfing þeirra félaga fyrir bardagann. Vikuna fyrir bardagann munu þeir aðallega taka léttar æfingar.

Pétur Marinó Jónsson sagði í samtali við mbl.is fyrir nokkru að ekki væri hægt að bera þennan bardaga saman við bardaga Gunnars og Rick Story, þar sem Gunnar tapaði. „Þetta eru mjög ólíkir andstæðingar. Story er meira glímumaður sem pressar á meðan Thatch er meira stór og höggþungur striker. Þeir eru ólíkir, en ég er viss um að Thatch eigi eftir að horfa á þann bardaga og hugsa „svona gæti ég unnið Gunna.“ Planið hans er samt örugglega að rota Gunna,“ segir Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert