Hlaupið hefur opnað umræðuna um sjálfsvíg

Ljósmynd/Útmeða hópurinn

„Málstaðurinn er kominn upp á yfirborðið og þá er markmiðinu náð,“ segir Arnaldur Birgir Konráðsson, einn hlaupara Útme'ða hópsins, sem hefur hlaupið hringinn í kringum landið á seinustu dögum til að vekja athygli á sjálfs­víg­um ungra karla.

Hópurinn, sem samanstendur af tólf hlaupurum, lagði af stað frá skrif­stofu Rauða kross­ins í Efsta­leiti á þriðjudag og mun enda hringferðina á sama stað á morgun. Geðhjálp, Hjálp­arsími Rauða kross­ins og hlaupa­hóp­ur­inn standa sam­eig­in­lega að verk­efn­inu, en mark­mið átaks­ins er að efna til vit­und­ar­vakn­ing­ar meðal al­menn­ings til að fækka sjálfs­víg­um í þess­um viðkvæma hópi.

Hlaupa um borð í Herjólfi

Hópurinn er nú staddur í Landeyjahöfn á leið til Vestmannaeyja en mun ekki hvílast þrátt fyrir að vera um borð í Herjólfi, heldur hlaupa á hlaupabretti á leiðinni. „Það er búið að koma fyrir hlaupabretti um borð og það verður sett í gang, sem hefur aldrei verið gert áður. Við munum svo hjálpast að við að fara á brettið en það fer allt eftir ölduhæð hvernig það mun ganga,“ segir Birgir og bætir við að leiðin til Vestmannaeyja líti vel út, en ferðin til baka verði að öllum líkindum þyngri. „Þá eiga að vera komnar stærri öldur.“

Hópurinn vildi tengja Vestmannaeyjar við hringveginn og mun því hlaupa hring þar þegar komið verður í land, áður en snúið verður til baka í kvöld. Birgir segir það aðallega til gamans gert að hlaupa um borð í Herjólfi, en einnig til að setja enn meiri kraft í málstaðinn. „Það er svo mikilvægt að vekja athygli á þessu brýna málefni og það hefur gengið vel. Við höfum meðal annars fengið upplýsingar frá hjálparsíma Rauða krossins, 1717, um að fólk sé farið að nýta sér hann meira en áður svo þetta hefur virkilega skilað sínu og opnað umræðuna eins og til stóð.“

Ljósmynd/Útmeða hópurinn

„Búið að vera mikið ævintýri“

Birgir segir ferðina hafa gengið vonum framar, en markmið hópsins var að hlaupa þessa leið á innan við 5 sólarhringum. Er það í fyrsta skipti sem slíkt er reynt á Íslandi og hefur hópurinn haldið áætlun að sögn Birgis. „Við höfum frekar verið á undan áætlun ef eitthvað er,“ segir hann, en hlaupahópurinn hefur skipt sér upp sex pör sem samanstanda af einum karli og einni konu, og hleypur hver hlaupari í 30 mínútur í senn með það að leiðarljósi að halda hröðu “tempói” allan hringinn.

„Veðrið hefur verið nokkuð gott fyrir utan smá mótvind í Borgarnesi og svo hafa móttökurnar á hverjum stað verið frábærar,“ segir hann og bætir við að hópurinn hafi fengið samhlaup á nokkrum stöðum, meðal annar Egilsstöðum og Akureyri og mun einnig fá það í Vestmannaeyjum. „En það hefur alls staðar verið tekið vel á móti okkur hvort sem það er í formi þess að fylla á vatnsbrúsa eða hella upp á kaffi.“

Hlaupið er mjög krefjandi því hver hlaupari þarf að meðaltali að hlaupa á 12 km hraða tæplega 30 km leið á hæðóttu undirlendi á hverjum einasta degi. Á milli hlaupalota hvílast og nærast hlaupararnir í lítilli rútu. „Þetta er búið að vera mikið ævintýri. Við erum fjórtán manns sem búum saman í rútunni og það hefur gengið lyginni líkast. Það eru allir með málstaðinn efst í huga og þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Birgir.

Ljósmynd/Útmeða hópurinn

Hvetja unga karla til að setja tilfinningar í orð

Sjálfs­víg hafa verið al­geng­asta dánar­or­sök ís­lenskra karl­manna á aldr­in­um 18 til 25 ára á Íslandi á allra síðustu árum en fjór­ir til sex ung­ir menn svipta sig lífi að jafnaði á Íslandi á hverju ári. Ríf­lega eitt sím­tal til Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 snýst um sjálfs­víg, eigið eða annarra, á hverj­um ein­asta degi all­an árs­ins hring. 

Með slagorðinu Útme‘ða eru ungir karlmenn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð til að stuðla að því að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum. 

Hópurinn var staddur í Kirkjubæjarklaustri í nótt þegar hlaupararnir fengu heimsókn frá manni sem missti son sinn í sjálfsvígi fyrir níu árum. „Hann flutti hvatningarræðu fyrir okkur og það hefur gefið fólki kraft fyrir restina á ferðalaginu,“ segir Birgir.

Allir velkomnir með lokasprettinn

Lokasprettur hlaupsins verður farinn frá Húsgagnahöllinni klukkan 11 í fyrramálið og endað í móttöku hjá Rauða krossinum. Birgir segir alla velkomna, og segir hópinn vonast til þess að fólk fjölmenni þessa síðustu fimm kílómetra með þeim.

Eins og fram hefur komið vill hópurinn vekja athygli á algengi sjálfsvíga ungra karla með hlaupinu og safna fjármunum fyrir gerð forvarnarmyndbands og herferðar til að fækka sjálfsvígum í þessum viðkvæma aldurshópi.

Hægt er að styrkja átakið með því að hringja í söfn­un­ar­sím­ann 904-1500 til að veita 1.500 króna fram­lag eða með því að leggja inn frjáls fram­lög á styrkt­ar­reikn­ing­inn 546-14-411114, kt. 531180-0469.

Face­booksíða Út me'ða

Ljósmynd/Útmeða hópurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert