Listaskáldin launalausu

Skortir okkur unga rithöfunda?
Skortir okkur unga rithöfunda? mbl.is/Styrmir Kári

Umsóknir í launasjóð rithöfunda hafa aldrei verið fleiri. Veittum mánaðarlaunum fjölgar en sífellt færri rithöfundar undir þrítugu fá starfslaun úr sjóðnum. Eru ungir rithöfundar hugsanlega verri í dag en fyrir tíu árum?

Sé úthlutunarsaga launasjóðs rithöfunda skoðuð má sjá að á síðustu tíu árum hefur að meðaltali aðeins einn höfundur undir þrítugu hlotið starfslaun á ári. Árin 1995-2004 fengu níu mismunandi rithöfundar undir þrítugu greidd út 216 mánaðarlaun, sem samsvarar tvennum árslaunum á hvern höfund, eða tuttugu prósentum af úthlutunum í heildina.

Þegar litið er til áranna 2005-2014 sést hins vegar að sex mismunandi höfundar fengu aðeins 39 mánaðarlaun, sem samsvarar um hálfum árslaunum á hvern höfund, eða fjórum prósentum af heildarúthlutunum. Samt hefur mánaðarlaunum til rithöfunda fjölgað um rúmt hundrað.

Líti maður yfir nöfn þeirra sem voru á þrítugsaldri og fengu laun á tíunda áratugnum er greinilegt að þetta eru þeir höfundar, um fertugt, sem eru mest áberandi í bókmenntaflórunni í dag, m.a. Andri Snær Magnason, Gerður Kristný, Auður Jónsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir og Steinar Bragi. Að sama skapi má sjá skilmerkilega þróun þar sem sést að þau sem hlutu starfslaun fyrir þrítugt hafa fengið þau nær sleitulaust áfram síðan.

Úthlutun ræður úrslitum

Aðspurður segir Andri Snær Magnason, sem fékk fyrst starfslaun 24 ára gamall, það hafa skipt sköpum að hafa getað einbeitt sér að því að skrifa og ekki hafa þurft að byrja að vinna á auglýsingastofu eða við hellulagnir. Hann lofar enn fremur árangur sjóðsins og segir það sýnt að þeir sem fengu laun greidd á árunum milli 1990 og 2000 hafi skilað sjáanlegum árangri, sé litið til þýðinga íslenskra bókmenntaverka út á við.

„Það hefur sýnt sig með þessar útgáfur erlendis að það eru stærstu bókmenntaþjóðirnar sem gefa okkar höfunda út. Þeir hafa jafnframt fengið verðlaun í samkeppni við erlenda höfunda. Það ræður úrslitum að þessir höfundar fengu tíma til að skrifa bækur sínar af alvöru. Við erum ekki bara í áhugabókmenntum,“ segir hann.

Andri Snær telur þessi kynslóðaskil, eins og þau birtast í úthlutunum til rithöfunda, varhugaverð og bendir á mikilvægi þess að endurnýjun eigi sér stað. „Ef það koma ekki nýir höfundar sem hafa nýtt sjónarhorn missa bókmenntirnar tengslin við heilu kynslóðirnar. Það er mögulega einhver Einar Kárason þarna milli tvítugs og þrítugs, sem verður ekki Einar Kárason.“

Laxness hefði verið hafnað

Kerfið sem úthlutunarnefndir fara eftir byggir á stöðlum þar sem ferill listamanns leikur veigamikið hlutverk í mati á umsóknum. Í tilfelli rithöfunda byggir það nær alltaf á því hvort verk þeirra hafa fengið birtingu og einnig hvar þau hafa birst. Samkvæmt þessum verkferlum hefði t.d. fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness, Barni náttúrunnar, verið hafnað þar sem höfundur hennar hafði ekki hlotið útgáfu áður. Þar að auki ríkir óneitanlega ákveðið stigveldi á útgáfumarki og skiptir þá máli hvort gefið er út hjá litlu forlagi eða stóru.

Þessi innbyggða virkni sem tekur mið af ferli listamanns stuðlar þannig að vissri stöðlun fagurbókmennta þar sem stór forlög eru líklegri til þess að láta markaðslögmál ráða, veðja frekar á reynda höfunda og eru síður tilbúin að taka áhættu – eins og viðkvæði ungskálda hljómar.

Lestu greinina í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Úthlutunum til ungra rithöfunda hefur fækkað mikið.
Úthlutunum til ungra rithöfunda hefur fækkað mikið. mbl.is
Lestu greinina í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins
Lestu greinina í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert