„Oh, hér kemur Ísland, þá vinnum við aldrei“

Facebooksíða Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Þessa vikuna hafa staðið yfir heimsleikar lögreglu- og slökkviliðsmanna í Fairfax í Virginíu, vestan Atlantsála og lýkur þeim nú um helgina. Leikar þessir eru haldnir annað hvert ár og voru síðast haldnir í Belfast á Norður Írlandi. Þetta kemur fram á Facebooksíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er skemmst frá því að segja að þriðju leikana í röð tryggði Ísland sér gull í körfuknattleik með fyrirkomulaginu 3 á 3,“ segir á Facebooksíðunni. „Andstæðingum íslenska liðsins er vorkunn þar sem í liðinu er, að öðrum ólöstuðum, m.a. núverandi Íslandsmeistari í körfuknattleik auk fleiri methafa Íslandsmeistaratitils en mikil reynsla er í þessu liði frá hverjum leikmanni. Liðið skipar t.d. lögreglumenn frá LRH og slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins svo eitthvað sé nefnt.

Íslenska liðið keppti um gullið við lögreglumenn frá Hong Kong og endaði leikurinn með 6 stiga mun. Þá mun þessari línu hafa verið fleygt fram í upphafi keppninnar: „Aahh man, here comes Iceland, nobody´s gonna win“.

Fleiri góðmálmar voru sóttir vestur til Bandaríkjanna. Nefna má sem dæmi að lögreglumaður frá Selfossi setti heimsleikamet í réttstöðulyftu kvenna, 171 kg - geri aðrir betur!

Keppnisgreinar á leikunum eru mýmargar og má t.d. nefna stangveiði, víðavangshlaup, kraftlyftingar, knattspyrnu, skotfimi af ýmsu tagi, júdó, sjómann, íshokkí o.m.fl.

Látum þetta duga að sinni en leikunum verður án efa gerð betri skil síðar meir, enda frá mörgu að segja. Meðfylgjandi mynd var tekin í upphafi leikanna er af nýkrýndum meisturum í körfu en leikurinn fór fram í gær sem, líkt og sagði að ofan, endaði með sigri Íslands.

Áfram Ísland!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert