Beittu hjartahnoði í hálftíma

Fjölmargir sækja Gullfoss heim á hverju ári.
Fjölmargir sækja Gullfoss heim á hverju ári. Eggert Jóhannesson

Erlendir læknar höfðu beitt hjartahnoði í rúman hálftíma eftir að eldri kona frá Þýskalandi fékk hjartaáfall fyrir utan veitingasölu við Gullfoss á laugardaginn þegar lögregla kom á vettvang. 

Ekkert hjartastuðtæki var til staðar á ferðamannastaðnum en slíkt tæki er aftur á móti að finna í öllum lögreglubílum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi og var því hægt að nota tækið eftir að lögreglu bar að garði. 

Frétt mbl.is: Erlenda ferðakonan er látin

Fjölmargir lögðu leið sína að Gullfossi á laugardaginn. Meðal gesta voru reyndir læknar frá Þýskalandi og Bandaríkjunum og hófu þeir þegar í stað endurlífgun. Við góðar aðstæður er lögregla um fjörutíu mínútur í neyðarakstri frá Selfossi að Gullfossi.

Á laugardag var næsti bíll aftur á móti við verslun á Laugarvatni og því leið þrjátíu og ein mínúta frá því að beiðni um aðstoð barst og lögregla kom á vettvang. Skömmu síðar kom sjúkrabíll og því næst þyrla Landhelgisgæslunnar sem hafði verið á leið í útkall á Holtavörðuheiði þar sem vélhjólamaður slasaðist.

Liðin helgi, fyrsta helgin í júlí, er ein af stærri ferðamannahelgum sumarsins og því var gríðarleg umferð á leið frá Laugarvatni á Gullfoss og tafði það nokkuð fyrir lögreglu.

Hefðu viljað hafa öll tæki við höndina

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir lögreglu hafa mælst til þess að hjartastuðtæki sé til staðar á fjölförnum ferðamannastöðum líkt og á Gullfossi.

„Í þessum málum þá skipta sekúndurnar eða mínúturnar máli og þess vegna er skynsamlegt að þessi tæki séu til staðar. Það er ekki hægt að gera kröfu um að einstaklingar komi þeim upp en það er vinsamleg ábending að þeir sem eru með rekstur á fjölmennum ferðamannastöðum hafi þessi tæki til að grípa í,“ segir Oddur í samtali við mbl.is.

Allir lögreglubílar á Suðurlandi eru búnir hjartastuðtæki og búnaði til súrefnisgjafar og flestir af föstu starfsmönnunum eru lærðir sjúkraflutningamenn að auki.

Endurlífgun hófst eins og fyrr sagði þegar í stað og var hún í höndum lækna sem vanir eru endurlífgun. Oddur segir að þeir hefðu þó svo sannarlega viljað hafa öll tæki við höndina, til að mynda hjartastuðtæki, en þó er ekki hægt að segja til um hvort það hefði komið að gagni í þessu tilviki.

Ferðamenn við Gullfoss.
Ferðamenn við Gullfoss. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert