Embættismenn harðari en pólitíkin

„Pólitíkin hefur verið öllu mýkri í sinni afstöðu,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkismálaráðherra, og vísar til að orða Angelu Merkel um að það beri að virða þjóðaratkvæðagreiðslu Grikkja á meðan honum virðist embættismenn innan sambandsins ekki telja niðurstöðurnar ekki skipta öllu máli.

mbl.is ræddi við Gunnar Braga og Birgi Ármannsson, formann utanríkismálanefndar Alþingis, um niðurstöður grísku atkvæðagreiðslunnar. Birgir segir að vandasamt verði fyrir Evrópusambandið að semja við Grikki úr þessu og gefa þeim betri kjör því það gæti styggt aðrar þjóðir í S-Evrópu sem hafi þurft að fara í mikla niðurskurði. Hugsanlega gætu stjórnmálaöfl sem svipi til Syriza-flokksins í Grikklandi náð vinsældum í löndum á borð við Spán og Portúgal.

Engar afbókanir til Krítar

Þrátt fyrir að mikil óvissa sé um fjárhagslega framtíð Grikklands og að hömlur séu á hversu háar upphæðir sé hægt að taka út úr hraðbönkum reyna Grikkir að tryggja  að ferðamennska gangi klakklaust fyrir sig. Heimsferðir fljúga með íslenska ferðamenn til Krítar á 10-11 daga fresti og Tómas J. Gestsson, framkvæmdarstjóri, segir að þrátt fyrir fréttir af ástandinu gangi allt sinn vanagang. "Allir eru rólegir yfir þessu, fólk hefur getað tekið út úr hraðbönkum og það er ekki farið að bera á vöruskorti."

Ástandið sé líklega betra á Krít þar sem minna sé af ríkisstarfsmönnum en í t.a.m. í Aþenu og tekjur komi frá ferðamönnum. Næsta flug ferðaskrifstofunnar er á mánudag og Tómas segir að engar afbókanir hafi borist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert