Koma Tysons „sama gamla þöggunin“

Mike Tyson.
Mike Tyson. AFP

„Umræðan hefur verið vægast sagt hatrömm og kvenfjandsamleg, en það er varla við öðru að búast í þjóðfélagi sem telur þægindi og feril nauðgara mikilvægari en þolenda,“ segir Elísabet Ýr Atladóttir, ein meðlima Facebook-hópsins Aktívismi gegn nauðgunarmenningu, sem stendur að baki undirskriftarlista gegn komu boxarans Mike Tyson hingað til lands.

Eins og fram kom í fréttum í síðustu viku er íþróttamaðurinn umdeildi væntanlegur til landsins í haust með sýningu sína The Undisputed Truth. Sýningin er byggð á ferli hans frá upphafi til dagsins í dag og er Tyson ekki sagður draga neitt undan. „Hann mun greina frá öll­um viðbjóðnum og öll­um sigr­un­um,“ sagði Björg­vin Rúnarsson, sem flytur Tyson til landsins, í útvarpsþættinum Valtýr og Jói á Bylgj­unni í síðustu viku.

Óásættanlegt að nauðgari fái heiðursmeðferð

Í yfirlýsingu frá hópnum kemur fram að í ljósi þess að Tyson hafi ekki aðeins nauðgunardóm á bakinu heldur hafi einnig verið sakaður um ofbeldi gagnvart fyrrverandi kærustu, þyki það undarlegt að hann skuli boðinn velkominn til Íslands. Þegar konur hafa loks rofið þögnina og talað opinskátt um kynbundið ofbeldi af öllum toga er óásættanlegt að dæmdur nauðgari og ofbeldismaður fái slíka heiðursmeðferð.“

Í samtali við mbl.is segir Elísabet Tyson aldrei hafa tekið ábyrgð á eigin brotum, en ef hann hefði gert það og bætt fyrir brot sín hefði listinn aldrei orðið til. „Menn sem ljúga upp á brotaþola hafa ekki unnið sér inn uppreisn æru.“

Þöggunin heldur áfram á kommentakerfum

Elísabet segir Tyson aldrei hafa sýnt neina iðrun, og það undirstriki þau slæmu skilaboð sem koma hans myndi senda. „Hann hefur í raun staðfastlega neitað öll þessi ár, jafnvel reynt að rústa trúverðugleika konunnar sem hann nauðgaði. Hann lét eitt sinn út úr sér að hún væri „wretched swine of a woman“. Aðdáendur hans hafa svo tekið þátt í þessu af ólýsanlegri grimmd, og það sama er í raun að gerast á kommentakerfum núna,“ segir hún og vísar þar í athugasemdir við frétt Vísis sem birtist um helgina. 

Þar hafa meðal annars fallið ummæli um það að Tyson hafi „tekið út sína refsingu“ og eigi að fá að koma hingað til lands án athugasemda. Elísabet segir þessi ummæli ekki eiga rétt á sér. „Að taka út refsingu er eitt, en til að ná fram betrun þarf að taka ábyrgð. Það hefur hann aldrei gert og mun eflaust ekki gera og því eru ummælin um að hann hafi „tekið út sína refsingu“ ekki bara merkingarlaus heldur líka hættuleg,“ segir hún og heldur áfram:

„Ofbeldismenn sem neita að taka ábyrgð eru líklegir til að hafa brotið af sér áður, og til að brjóta á fólki aftur. Þeir fá þau skilaboð að það sem þeir gerðu sé ekkert það hræðilegt, jafnvel að það sé ókei. Við erum of fljót að taka menn í sátt, sérstaklega í kynferðisofbeldismálum. Það er óþægilegt að krefjast ábyrgðar og fólk velur frekar meðvirknilega týpu af „fyrirgefningu“ sem kemur alltaf niður á brotaþolum á endanum.

Þögnin ekki ópólitísk

Elísabet segir þögnina ekki vera ópólitíska, og það sé ekki hlutlaust að segja ekkert. Hún segir nóg komið af því að fólk tali um ofbeldi í hálfum hljóðum sín á milli en geri svo ekkert til að menn taki ábyrgð. „Að gera ekkert er ekki að „taka enga afstöðu“. Það að gera eða segja ekkert er hápólitísk afstaða alveg eins og þegar fólk tekur afstöðu með eða á móti,“ segir hún.

Skilaboðin með þögninni væru í raun að við munum ekkert gera þegar nauðgarar taka enga ábyrgð. Að þolendur geti búist við því að mennirnir sem beittu þau ofbeldi séu teknir í sátt, að þeir fái að njóta vafans, þótt þeir hafi aldrei unnið sér það inn. Þetta væri sama gamla þöggunin, í sama gamla búningnum.

Karlmenn einna helst mótmælt undirskriftalistanum

Elísabet segir þá sem mótmæla listanum einna helst vera karlmenn. Þó hafi einnig komið upp góðar umræður og stuðningur verið mikill. „Konur hafa tekið slaginn af þvílíkum krafti og leyfa ekki kvenhatrinu að liggja óáreittu.“

Hún segir umræðuna þó ekki hafa komið á óvart. „Það hefur verið mjög hvetjandi að sjá konur svara fullum hálsi þegar menn vaða um með kvenhatur í kommentakerfum og annarsstaðar. Ég vildi óska að ég gæti sagt að það komi mér á óvart að karlar taki ekki jafn mikinn þátt í því líka, en ég er orðin vön því að þeir sitji meira hjá þegar konur eru að berjast,“ segir hún.

Hafa ekki heyrt frá skipuleggjendum viðburðarins

Þá segist hún ekkert hafa heyrt frá skipuleggjendum viðburðarins ennþá. „Það er alveg kominn tími til að heyra hvað þeir meina með að halda þessa sýningu, og hvort þeir skilji hverskonar skilaboð þetta sendir til allra þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Eru nauðgarar teknir í sátt um leið, jafnvel þótt þeir hafi ekkert sýnt fram á betrun?“

Loks segir hún hópinn ekki ætla að gefast upp, og ef undirskriftarlistinn nái ekki sínu ætlunarverki verði fólk líklega hvatt til að sniðganga sýninguna. Þá verði mögulega efnt til mótmæla, en það eigi eftir að koma betur í ljós.

Skipuleggjendur viðburðarins vildu ekki tjá sig að svo stöddu.

Elísabet Ýr Atladóttir.
Elísabet Ýr Atladóttir.
Frá hópnum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu komu einnig þessar myndir sem …
Frá hópnum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu komu einnig þessar myndir sem fóru sem eldur um sinu um netheima. Gula myndin þýðir að maður þekki einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en sú appelsínugula þýðir að maður hafi sjálfur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert