Kröfur langt umfram almenna markaðinn

Þórunn Sveinbjarnadóttir, formaður BHM, og Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, …
Þórunn Sveinbjarnadóttir, formaður BHM, og Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, sagði við aðalmeðferð í máli Bandalags háskólamanna (BHM) gegn ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að kröfur BHM væru langt umfram, næstum tvöfalt, það sem samið var um á almenna vinnumarkaðinum í lok maímánaðar. 

Það hefði að minnsta kosti verið mat samninganefndar ríkisins, meðal annars þegar litið hefði verið á málið með hliðsjón af tímalengd samningsins.

Hann sagði að meginkrafa BHM hefði gengið út á launabreytingar, bæði að breyta launatöflunni og eins að breyta því með hvaða hætti menntun skuli vera metin til launa. Launaliðurinn hefði verið sameiginleg krafa aðildarfélaganna átján, sem voru í samfloti í kjaraviðræðunum.

Eins og kunnugt er gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu sama dag og samningar tókust á almenna vinnumarkaðinum - í lok maí - um ráðstafanir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Aðgerðirnar voru í ellefu liðum en þeirra stærstar voru lækkun á tekjuskatti einstaklinga og fjölþættar aðgerðir í húsnæðismálum.

Einar Karl Hallvarðsson, lögmaður ríkisins í málinu, spurði Gunnar hvort þessi aðgerðaáætlun hafi verið kynnt fyrir samninganefnd BHM og svaraði Gunnar því játandi. Aðgerðirnar hefðu kannski ekki verið kynntar í smáatriðum, en efnislega og í hverju þær fólust í meginatriðum og að hverjum þær beindust.

Þórunn Sveinbjarnadóttir, formaður BHM, sagði fyrr um morguninn að ekkert samráð hefði verið haft við BHM þegar aðgerðaáætlunin var smíðuð. Forsvarsmenn bandalagsins hefðu einungis verið kallaðir á fund í fjármálaráðuneytinu þar sem þeim var kynnt efni yfirlýsingarinnar. „Í henni voru engar tilteknar tölur, bara efnisleg atriði,“ sagði Þórunn. Þau hefðu fengið að sjá eins konar vinnuskjal, sem síðan hefði verið unnið áfram með innan ráðuneytisins.

Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, tók í sama streng og sagði að samráð stjórnvalda við BHM hefði verið takmarkað.

Einar Karl Hallvarðsson, lögmaður ríkisins í málinu.
Einar Karl Hallvarðsson, lögmaður ríkisins í málinu. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert