Kvartaði undan símtali frá Sjálfstæðisflokknum

Fyrirtækin höfðu samband í gegnum síma, tölvupóst og SMS-sendingar.
Fyrirtækin höfðu samband í gegnum síma, tölvupóst og SMS-sendingar. mbl.is/Ómar

DV, Heimkaup, Nóbel námsbúðir og Sjálfstæðisflokkurinn brutu fjarskiptalög með samskiptum sínum við neytendur samkvæmt nýbirtum ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar. Allianz Ísland var hins vegar sýknað af kvörtunum um brot.

Aðilarnir fjórir gerðust brotlegir við 46.gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Greinin snýr að svokölluðum óumbeðnum fjarskiptum, en í 1. málsgrein segir: „Notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts, [þ.m.t. hvers konar rafrænna skilaboða (SMS og MMS)],1) fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram.“

Brot DV taldist varða við 5. mgr. laganna, þar sem hringt var í einstakling og honum boðin áskrift af blaðinu, þrátt fyrir að símanúmer hans væri bannmerkt í símaskrá. 

DV hafði samband við aðila með bannmerkt númer.
DV hafði samband við aðila með bannmerkt númer. mbl.is/Árni Sæberg

Skráðir í gegnum Bland.is

Brot Heimkaupa sneri að tölvupóstsendingum til einstaklings án fyrirfram samþykkis hans. Þannig bárust honum tölvupóstar frá Heimkaupum þrátt fyrir að hafa aldrei skráð sig á póstlista fyrirtækisins. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að kvartanda hafði borist tölvupóstur frá vefnum Bland.is þar sem fram kom að hann yrði skráður á póstlista Heimkaupa nema hann óskaði sérstaklega eftir því að það yrði ekki gert. Heimkaup bar m.a. fyrir sig að um gjöf til notenda Bland.is væri að ræða, enda fengju notendur inneign hjá Heimkaupum samhliða skráningu á póstlistann. Þó hefði verið í boði að smella á hlekk og láta ekki skrá sig á listann. Aðferðir fyrirtækisins þóttu hins vegar varða við fyrrnefnda 1. mgr. laganna.

Nemendur HÍ fengu tölvupóst frá Nóbel.
Nemendur HÍ fengu tölvupóst frá Nóbel. mbl.is/Kristinn

Höfðu samband við háskólanema

Nóbel námsbúðir töldust hafa brotið gegn lögunum með sambærilegum hætti, en þannig var m.a. haft samband við nemendur Háskóla Íslands og þeim kynnt þjónusta fyrirtækisins. Kvartandi sem barst póstur frá Nóbel benti m.a. á að hann hefði aldrei verið á póstlista hjá fyrirtækinu og aldrei óskað eftir slíkum sendingum. Þá benti hann á að Nóbel hefði óeðlilega vitneskju um hverjir væru í hvaða námskeiði hjá HÍ og röðuðu tölvupóstum sínum eftir því. Nóbel báru fyrir sig undantekningarákvæði í lögunum þar sem kemur fram að „heimilt sé að nota tölvupóstfang við sölu á vörum eða þjónustu fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfangs þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun“.

Í ákvörðun stofnunarinnar var hins vegar m.a. vísað til álits starfshóps um tilskipum Evrópuþingsins um málið. Í álitinu er m.a. áréttað að um undanþágu sé að ræða sem túlka skuli þröngt. Þá segir að undanþágan eigi einungis við um viðskiptavini þess sem sendir út tölvupóstinn enda hafi upplýsingar um tölvupóstfang viðskiptavinar fengist við sölu á vöru eða þjónustu. Fyrirtækið taldist hafa brotið gegn 1. mgr. 46. gr. líkt og Heimkaup.

Haft var samband við einstaklinga og spurt hvort þeir væru …
Haft var samband við einstaklinga og spurt hvort þeir væru búnir að kjósa. mbl.is/RAX

„Ert þú búinn að kjósa?“

Brot Sjálfstæðisflokksins varða símtal og SMS sendingar til kvartanda, en númer hans var bannmerkt í símaskrá. Þannig fékk hann nokkur skilaboð, t.a.m. á kjördag þar sem minnt var á að kjósa og skrifað „XD!“. Auk þess barst honum símtal þar sem spurt var hvort hann væri búinn að kjósa. Spurningunni svaraði hann játandi og fékk hann þ.a.l. ekki frekari kynningu á flokknum. Benti hann hins vegar á að hér væri þó um markaðssetningu að ræða og bar tilvikið saman við símtöl brauðristasala máli sínu til stuðnings.

„Sambærilegt tilvik væri ef framleiðandi brauðrista myndi hringja í fólk og spyrja hvort það ætti brauðrist. Í þannig tilvikum myndi það ekki skipta máli þótt ekki komi til hvatningar til að kaupa brauðrist,“ sagði m.a. í kvörtuninni. Í ákvörðuninni kemur fram að brotið varði við 5. mgr. 46. gr. fjarskiptalaga á sama hátt og brot DV.

Í fréttatilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun kemur fram að kvörtunum af þessu tagi hafi fjölgað mikið undanfarin ár. Þannig hafi slíkum kvörtunum fjölgað um 59% frá árinu 2011 til 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert