Lítið um svör einu ári eftir Skeifubruna

Frá stórbrunanum í Skeifunni.
Frá stórbrunanum í Skeifunni. mbl.is/Styrmir Kári

Í dag er eitt ár frá brunanum mikla í Skeifunni, en þá brann meðal annars verslunarhúsnæði Griffils, Rekstrarlands og þvottahús Fannar. Skemmdir urðu einnig á öðrum fasteignum á sama reit, svo sem þar sem Stilling var til húsa og ýmsum skrifstofum sem vísuðu í átt að Hagkaupum.

Eftir brunann var sett á laggirnar nýtt húsfélaga eigenda sem þarna eru og hafa arkitektar á þeirra vegum unnið að breyttu deiliskipulagi í samstarfi við borgina. Samkvæmt skipulagsyfirvöldum er í gangi vinna varðandi breytt rammaskipulag fyrir Skeifuna og tekur sú vinna rúmlega ár í viðbót, en margir eigendur eru orðnir langeygðir að vita hvað þeir geta gert varðandi uppbyggingu á reitnum.

Upplýsingamynd sem var gerð í kjölfar brunans. Þar má sjá …
Upplýsingamynd sem var gerð í kjölfar brunans. Þar má sjá þá sem voru með starfsemi á reitnum og atburðarásina fyrir ári síðan. Grafík/Elín Esther

Vilja svör fyrir sumarlok

Samkvæmt Friðjóni Sigurðarsyni, framkvæmdastjóra viðskipta- og þróunarsviðs hjá fasteignafélaginu Reitum vita eigendur ekki mikið um stöðu mála. Reitir áttu umtalsverðan hluta fasteigna á svæðinu, en Friðjón segir að sér þyki staðan orðin nokkuð óþægileg fyrir félagið. Segir hann að nú sé liðið ár og enn hafi ekki að fullu verið gerð upp öll tryggingamál og þá hafi hann áhyggjur af skipulagsvinnu Reykjavíkur vegna reitsins.

Vandamálið að sögn Friðjóns er að þau félög sem eigi hlut að máli séu mörg með mismunandi hagsmuni. Þá sé borgin með sína sýn á þróun í Skeifunni. Segir hann að margir sjái Skeifuna áfram fyrir sér sem ekta verslunarsvæði, meðan borgin horfi til uppbyggingar íbúðabyggðar. „Menn vita ekki alveg hver á að taka boltann.“

Fjölmargir, hundruð manna, fylgjast með húsunum í Skeifunni brenna.
Fjölmargir, hundruð manna, fylgjast með húsunum í Skeifunni brenna. mbl.is/Thor Viðar Jónsson

Segir hann að hjá Reitum óski menn eftir því fyrir sumarlok að fá að vita frá borginni hvað megi gera og hvað megi ekki gera á reitnum. Komi ekki fram skýr svör segir hann það væntanlega vera kröfu Reita að fá að byggja sambærilegar byggingar og brunnu.

Vinna við rammaskipulag gæti tekið ár í viðbót

Hrólfur Jónsson, forstöðumaður skrifstofu eigna- og  atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, segir að síðasta ár hafi verið unnin vinna varðandi byggingarmagn og endurskipulagningu lóðarmarka á reitnum. Segir hann að fyrir liggi samkomulag eigenda hvernig eðlilegast væri að byggja upp á svæðinu, þ.e. hvaða hlutfallsrétt menn fengju í nýju skipulagi miðað við eign sína.

Fyrst þarf þó að klára vinnu varðandi rammaskipulag Skeifu-svæðisins, en þar er gert ráð fyrir að skipta svæðinu upp í um 10 reiti og í framhaldinu gefa eigendum kost á að deiliskipuleggja þá. Með þessu eru borgaryfirvöld að leggja ákveðnar leikreglur um svæðið sem eigendur geta svo útfært nánar á sínum reitum. Hrólfur segir að í minnisblaði við rammaskipulagið komi fram að sú vinna geti tekið 12-16 mánuði, en bréfið var skrifað fyrir tæplega tveimur mánuðum. Það gæti því orðið allt að 

Húsnæði Fannar eyðilagðist í brunanum og fluttist starfsemin upp á …
Húsnæði Fannar eyðilagðist í brunanum og fluttist starfsemin upp á Klettháls. Eigendur vilja nú nýta lóðina til uppbyggingar en lítið er um svör frá Reykjavíkurborg. Ljósmynd/Hilmar Jónsson

 Veltir fyrir sér að fara strax í uppbyggingu

Ari Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fannar, segir að hann bíði enn eftir að sjá hvað verði gert á reitnum. Hann er líkt og forsvarsmenn Reita orðinn nokkuð langeygður um framtíðarsýn varðandi uppbyggingu. Um áramótin kom Fönn sér upp húsnæði á Kletthálsi þar sem núverandi starfsemi fyrirtækisins fer fram. Fönn á þó enn lóðina í Skeifunni og þrátt fyrir að Ari telji ólíklegt að færa reksturinn aftur þangað segist hann vilja fara að sjá málið hreyfast áfram þannig að hægt sé að nýta lóðina.

Eldurinn dreifðist mjög hratt á milli húsa í brunanum.
Eldurinn dreifðist mjög hratt á milli húsa í brunanum. mbl.is/Golli

 Segist Ari ekki hafa heyrt neitt frá Reykjavíkurborg síðan kynnt var að gera ætti nýtt rammaskipulag, en að sér virðist lítið vera að þokast áfram í málinu. „Ég er farinn að velta fyrir mér að fara í samskonar uppbyggingu eins og ég hef leyfi fyrir,“ segir hann, en þá væri um að ræða samskonar hús og Fönn átti og brann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert