Réttur löggjafans ríkur

Einar Karl Hallvarðsson, lögmaður ríkisins í málinu.
Einar Karl Hallvarðsson, lögmaður ríkisins í málinu. mbl.is/Styrmir Kári

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður telur að löggjafinn hafi mjög rúmar heimildir til að standa vörð um efnahagsleg markmið stjórnvalda. Það geti á engan hátt verið ómálefnalegt sjónarmið.

Hann sagði við aðalmeðferð í máli BHM gegn ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að ef fallist hefði verið á kröfur BHM, sem væru næstum tvöfalt meiri launahækkanir en samið var um á almenna vinnumarkaðinum, þá væri viðbúið að þeir kjarasamningar, þ.e. á almenna markaðinum, yrði felldir í þeim atkvæðagreiðslum sem nú standa yfir eða þeim sagt upp við fyrsta mögulega tækifæri.

Hann benti auk þess á að mat löggjafans snerist ekki aðeins um nauðsyn þess að stöðva verkföll BHM, heldur einnig að festa hér efnahagslegan stöðugleika í sessi. Það mat væri byggt á ýmsum atriðum, þar á meðal varnaðarorðum Seðlabanka Íslands, sem hefði reyndar hækkað stýrivexti sína eftir að samningar tókust á almenna markaðinum.

Einar Karl sagði að það væri greinilega uppi „stórkostlegur ágreiningur“ í málinu um hvort það snerist um neyðarástand eða almannahagsmuni.

Löggjafinn hefur ríkan rétt

Hvað varðaði heimildir stjórnvalda til að tryggja efnahagslegan stöðugleika í landinu benti Einar Karl á tvo gamla Hæstaréttardóma. Í þeim fyrri, Hrd. 1992 nr. 129/1991, segir að löggjafinn hafi haft til þess ríkan rétt að standa vörð um þau efnahagslegu markmið, sem ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins höfðu komið sér saman um.

Niðurstaðan var reyndar sú að lagasetning sem fól í sér afnám launahækkana starfsmanna í stéttarfélögum opinberra starfsmanna, BHMR, með afturvirkum hætti samrýmdist ekki jafnræðisreglunni.

Í síðari dómnum, Hrd. 1995 nr. 359/1994, í máli Geirs G. Waage sóknarprests, segir síðan að „skilyrði stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn hafi í framkvæmd verið skýrt rúmt hér á landi“. Hæstiréttur taldi að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar á úrskurð Kjaradóm, sem náði til launahækkunar presta, hafi verið sett á stjórnskipulegan hátt. Úrskurður Kjaradómur var afnuminn með bráðabirgðalögunum og taldi séra Geir að brýna nauðsyn hefði ekki borið til að setja lögin, eins og kveðið er á um í sjtórnarskrá.

Beindist sérstaklega að heilbrigðisþjónustu

Fram kemur í greinargerðinni sem fylgdi frumvarpinu sem síðan varð að verkfallslögunum að verkfall aðildarfélaga BHM hafi valdið miklu tjóni á mörgum sviðum, þó sérstaklega í heilbrigðisþjónustu. Aðgerðir félaganna hafi meðal annars beinst að starfsemi sjúkrahúsa og tengdri starfsemi sem ekki geti varist eða brugðist við aðgerðum nema í algerri neyð. 

Í minnisblaði embættis landlæknis til heilbrigðisráðherra 11. maí síðastliðinn hafi meðal annars komið fram að „ástandið í heilbrigðiskerfinu sé komið út fyrir þau mörk að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga.“

Í minnisblaði landlæknis til ríkisstjórnarinnar 4. júní sagði jafnframt að „það ástand sme hefur skapast er óþolandi og kemur til með að valdaóbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti.“

Einar Karl sagði að stefnandi í málinu hefði ekki hrakið þennan málflutning landlæknis. „Við byggjum ekki heilbrigðiskerfið á einhverri rústabjörgun. Það býður hættunnu heim og er öryggi sjúklinga ógnað,“ sagði hann.

Auk þess hafi ítrekað komið fram hvaða tjóni fjölmargir hagsmunaaðilar hafi orðið fyrir vegna verkfallsaðgerðanna. Fyrir utan aðstæður á heilbrigðisstofnunum megi nefna að verkfall lögfræðinga hjá sýslumannsembættum hafi stöðvað þinglýsingar skjala og útgáfu leyfa af ýmsu tagi. Þetta hafi valdið margháttuðum erfiðleikum. Verkfall dýralækna hafi einnig komið niður á matvælaframleiðendum og velferð dýra.

Hættuástand gæti skapast

Ljóst sé að verkfallsaðgerðirnar hafi haft verulega neikvæð áhrif á almannahagsmuni og sett verkefni ríkisins í uppnám. Hættuástand, sem feli í sér að lífi, heilsu eða öryggi manna sé stefnt í hættu, geti fljótlega skapast innan heilbrigðiskerfisins.

„Því standa mjög ríkir almannahagsmunir til þess að starf á heilbrigðisstofnunum landsins komist í eðlilegt horf, þannig að lög sem fela í sér bann við verkfalli eiga tvímælalaust rétt á sér við núverandi aðstæður. Ríkir almannahagsmunir og/eða réttindi annarra standa einnig til þess að bundinn verði endi á verkföll hjá starfsmönnum sýslumanns og dýralæknum,“ segir í greinargerðinni.

Þórunn Sveinbjarnadóttir, formaður BHM, og Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM.
Þórunn Sveinbjarnadóttir, formaður BHM, og Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert