Reyndu að afstýra neyðarástandi

Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá BHM, og Ástráður Haraldsson sem fer …
Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá BHM, og Ástráður Haraldsson sem fer með málið fyrir hönd BHM. mbl.is/Styrmir Kári

„Við vildum gera allt til þess að afstýra neyðarástandi,“ sagði Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá Bandalagi háskólamanna (BHM), við aðalmeðferð í máli BHM gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Hún fundaði oft á tíðum með til að mynda yfirstjórn Landspítalans og Bændasamtökunum á meðan verkfalli stéttarfélaga BHM stóð yfir. „Þegar einhverjir hnökrar komu upp varðandi undanþágubeiðnir, þá kölluðum við eftir fundi með hagsmunaaðilum,“ sagði hún. Einnig hefðu hagsmunaaðilarnir stundum haft frumkvæði að því að boða til fundar.

Hún sagði við aðalmeðferðina að það hefðu verið um 22 ríkisstofnanir sem verkföll BHM hefðu snert að einhverju leyti. Um tvö þúsund störf hefðu verið á undanþágu frá verkfalli - svokölluð öryggismönnun - hjá þessum stofnunum, en þar af aðeins 140 störf sem félagsmenn BHM sinna.

„Sem dæmi þá er enginn dýralæknir á undanþágulista hjá Matvælastofnun, enginn náttúrufræðingur hjá Matvælastofnun og enginn lögfræðingur hjá sýslumanninum á höfuðbrogarsvæðinu,“ benti hún á.

Togstreita milli geislafræðinga og Landspítalans

Hún sagði að undanþágunefndir aðildarfélaga BHM væru starfandi samkvæmt lögum til að geta brugðist við aðstæðum til að tryggja nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Undanþágunefndirnir hefðu síðan leitað til hennar þegar vafamál komu upp.

Erna nefndi enn fremur að undanþágunefndir félaganna hefðu oft tekið afstöðu á nýjan leik til undanþágubeiðna sem hún hafði áður hafnað. Beiðnunum hefði í millitíðinni verið breytt og þær sendar aftur til undanþágunefndanna. „Það var verið að gera allt til að afstýra neyðarástandi.“

Stundum hefðu komið upp hnökrar varðandi undanþágubeiðnir sem bárust undanþágunefnd Félags geislafræðinga. Erna sagði að geislafræðingar hefðu margoft bent á að það væri fullmönnun á Landspítalanum á meðal geislafræðinga á kvöldin, um helgar og á næturnar.

„Það var ákveðin togstreita á milli Landspítalans annars vegar og geislafræðinga hins vegar. Geislafræðingar voru mikið að benda á að það þurfti ekki endilega að kalla inn aukafólk því það væri fullmönnun eftir klukkan fjögur, samkvæmt undanþágulistum, og um nóttina og helgar. Á meðan taldi Landspítalinn að það væri ekki verkefni geislafræðinga að hafa skoðun á því hvernig ætti að skipuleggja þessi verkefni,“ sagði Erna meðal annars.

Hún sagðist hafa fundað margoft með yfirstjórn Landspítalans um það hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að mál söfnuðust upp.

Engin greining á neyðarstöðunni

Í stefnu BHM er bent á að engin hlutlæg greining liggi fyrir á hinni meintu neyðarstöðu, sem á að hafa komið upp í verkfalli BHM. Því hafi verið haldið fram ítrekað að neyðarástand hafi verið í heilbrigðiskerfinu án þess að nokkuð annað hafi verið sett fram en almennar alhæfingar því til stuðnings.

Engin rök hafi heldur verið færð fram um neins konar neyðarstöðu hvað varðar verkföll lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dýralæknum og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins, svo eitthvað sé nefnt.

„Svo virðist sem bann laganna hafi með geðþóttaákvörðun verið látið ná til þessara verkfalla og hlutaðeigandi stéttarfélög svipt stjórnarskrárvörðum samningsrétti með einhvers konar öfugsnúinni afstöðu til jafnræðis,“ segir í stefnunni.

Aðalmeðferð í máli Bandalags háskólamanna (BHM) gegn íslenska ríkinu fer …
Aðalmeðferð í máli Bandalags háskólamanna (BHM) gegn íslenska ríkinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert