Ríkið gekk allt of langt

Ástráður Har­alds­son fer með málið fyr­ir hönd BHM.
Ástráður Har­alds­son fer með málið fyr­ir hönd BHM. mbl.is/Styrmir Kári

Jafnvel þó svo að rök hefðu staðið til að setja lög á verkfallsaðgerðir aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) þá gekk löggjafinn miklu lengra en nauðsyn hefði borið til að tryggja þau markmið sem stjórnvöld settu sér. Þannig braut íslenska ríkið gegn stjórnskipulegri meðalhófsreglu.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Ástráðs Haraldssonar, lögmanns BHM, við aðalmeðferð í máli BHM gegn ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Hann sagði að lagasetningin hefði verið of yfirgripsmikil og með henni hefði verið gripið inn í samningsfrelsi aðildarfélaga BHM með mun víðtækari hætti en nokkur leið væri að réttlæta með vísan til þeirrar neyðarstöðu sem ríkið taldi vera uppi.

„Að mati BHM felur lagasetningin í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra, löglegra félagasamtaka,“ sagði Ástráður. Frelsi stéttarfélaga til að standa að gerð kjarasamninga væri varið af 74. grein stjórnarskrárinnar.

Auk þess telur BHM að með lagasetningunni, og þeirri skerðingu verkfallsréttar sem í lögunum felst, hafi ríkið brotið gegn samþykktum ILO, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98, og gegn 6. grein Félagsmálasáttmála Evrópu. Íslenska ríkið hafi undirgengist skyldur samkvæmt þessum samþykktum.

Reist á ómálefnalegum sjónarmiðum

Þá sagði Ástráður að löggjöfin væri reist á ómálefnalegum sjónarmiðum og vakti hann meðal annars athygli dómarans á framsetningu 3. gr. verkfallslaganna. Þar er kveðið á um að gerðardómurinn skuli „hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Við ákvarðanirnar skal jafnframt gæta að stöðugleika efnahagsmála.“

Ástráður benti á að í þessu felst að gerðardómur eigi að ákvarða starfskjör félagsmanna BHM á grundvelli kjaraákvarðana hópa sem eru í grundvallaratriðum mótuð á ósambærilegan hátt við það sem tíðkast um starfsmenn ríkisins. 

Þá fælist einnig í þessu að við ákvörðunin eigi ekki að taka mið af samningum BHM við aðra hópa ríkisstarfsmanna sem náð hafa kjarasamningum undanfarin misseri, þrátt fyrir að þeir séu til muna sambærilegri við félagsmenn BHM. Má í þessu samhengi benda meðal annars á lækna og framhaldsskólakennara.

Tókst að afstýra neyðarástandi

Einnig kom fram í máli Ástráðs að með ákvæðum 19. og 20. gr. kjarasamningslaganna hefði löggjafinn fengið stjórnvöldum úrræði sem geri það að verkum að neyðarástand sem réttlætti bann við verkföllum BHM eigi ekki að geta komið upp.

Þannig væri í 19. gr. laganna tekið fram að heimild til verkfalls samkvæmt lögunum næði meðal annars ekki til þeirra sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Í greininni er ráðherra falið að birta árlega skrá um störf þeirra sem á þessum grundvelli er óheimilt að leggja niður störf.

„Stefndi hefur gerð þessarar skrár á sínu forræði,“ sagði hann.

Auk þess sagði hann að í 20. gr. kjarasamningslaganna væri kveðið á um að sé verkfall hafið, þá sé heimilt að kalla starfsmenn, sem eru í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarásstandi. Þessum úrræðum laganna hefði ríkið beitt. Bæði með því að birta skrá samkvæmt 19. greininni og afla undanþága samkvæmt 20. grein þegar nauðsyn hefur krafið.

Engin rök hefðu verið færð fram sem skjóta rökum undir að þetta lögbundna úrræði sé ekki fullnægjandi, sér í lagi ekki andspænis stjórnarskrárvörðum réttindum félagsmanna aðildarfélaga BHM, samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

BHM telur raunar að því fari fjarri að nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu hafi ekki verið sinnt meðan á verkfallinu stóð. Undanþágunefndir hafi starfað allan þann tíma sem verkföllin stóðu og afgreiddu undanþágubeiðnir þannig að afstýra mætti neyðarástandi.

„Stefnandi telur fráleitt að halda því fram að sú vá hafi verið fyrir dyrum sem réttlætti svo víðtæka íhlutun,“ sagði Ástráður og benti auk þess á að ekki væri lögmæt forsenda skv 11. gr MSE eða 74. gr. stjórnarskrárinnar að banna verkföll vegna þess að þau hefðu áhrif.

Hann sagði að í verkföllunum hafi veittar undanþágur skipt hundruðum og vísaði að öðru leyti í málflutning Ernu Guðmundsdóttur, lögfræðings hjá BHM, sem flutti skýrslu fyrr í morgun.

Þá telur BHN ekki heldur að nein hlutlæg greining hafi legið fyrir á hinni meintu neyðarstöðu.

Ekki hægt að rökstyðja bann eftir á

Í greinargerð sem fylgdi verkfallsfrumvarpinu er meðal annars bent á að kjarakröfur aðildarfélaga BHM hafi verið umfram það sem samið hafi verið um í nýlegum samningi á almennum vinnumarkaði og geti því skapað hættu á óstöðugleika á vinnumarkaði með víxlhækkunum verðlags og launa ef þær næðu fram að ganga.

„Er það „efnahagsleg neyðarstaða“ að almenn hætta á óstöðugleika á vinnumarkaði með víxlhækkun verðlags og launa geti skapast ef fallist verði á kjarakröfur sem ekki hafa náð fram að ganga?

Geta samningar annarra ótengdra aðila á vinnumarkaði orðið til að hneppa að lögum umfang heimilla kjarakrafna á vinnumarkaði í öðrum samningum? Hver er þá sjálfstæður samningsréttur aðildarfélaga stefnanda?“ segir meðal annars í stefnu BHM.

Ástráður nefndi að þessi margumrædda neyðarstaða væri ekki komin upp. En ríkið teldi hins vegar að ef kröfur félaganna næðu fram að ganga, þá myndi hún koma upp. Lögin væru því eins konar forvirkar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að samningar næðust sem myndu leiða til neyðarástands.

Hins vegar þyrfti mat stjórnvalda á því hvað sé neyðarstaða að fara fram áður en verkföllin voru bönnuð, ekki eftir á. Ekki væri hægt að rökstyðja bann við verkfalli eftir á. Það yrði að liggja fyrir fyrirfram hlutlægt og ígrundað mat á hinni meintu neyðarstöðu.

Þórunn Sveinbjarndaóttir, formaður BHM, og Páll Halldórsson, formaður samninganefndar ríkisins.
Þórunn Sveinbjarndaóttir, formaður BHM, og Páll Halldórsson, formaður samninganefndar ríkisins. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert