Sigmar kveður Kastljósið

Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Sigmar Guðmundsson hefur sagt skilið við Kastljósið og mun taka að sér önnur verkefni innan veggja RÚV næsta vetur. 

Vísir greindi fyrst frá og í samtali við mbl.is staðfestir Sigmar fregnirnar. „Fyrir það fyrsta get ég ekki hugsað mér að vinna í svona álagi og stressi á meðan að ég er að sinna batanum mínum,“ segir Sigmar um ástæður breytinganna. „Það hentar engan veginn slíkri vinnu að vera að vinna frá tíu á morgnanna til níu á kvöldin. Við vorum alveg sammála um þetta, ég og mínir yfirmenn. Þetta tekur líka svo mikinn tíma frá fjölskyldu og börnum. Það er svolítið það sem ég þarf á að halda, að sinna því betur.

Í maí greindi Sigmar opinberlega frá baráttu sinni við alkóhólisma og því að hann væri á leið í meðferð á Vog eftir að hafa fallið. Skrifaði hann pistil  á Facebook síðu sína þar sem hann sagði alkóhólismann hafa sett mark sitt á líf hans frá unglingsárunum.

Frétt mbl.is: Sigmar í meðferð á morgun

„Svona lagað spyrst út. Og eðli­legt að fólk velti því fyr­ir sér hvort ég sé lost keis. Ég féll. Og þegar maður fell­ur þá stend­ur maður upp og held­ur áfram,“ skrifaði Sigmar.

Aðdáendur Útsvarsins þurfa ekki að örvænta því Sigmar mun snúa aftur í spyrilshlutverkið en hvað önnur verkefni varðar segir hann of snemmt að segja til um þau. 

„Við erum bara að velta fyrir okkur öðrum verkefnum. Það er nóg af þeim og það er bara ekki tímabært að greina frá því hver þau eru.“

Pistillinn sem Sigmar skrifaði fyrir meðferðina hreyfði við mörgum og þótt baráttuandinn skini í gegn var efnið eðlilega þungt. Hljóðið í Sigmari er allt annað í dag og hann hlær við þegar blaðamaður spyr út í líðan hans. „Ég er bara skrambi góður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert