Snædís ráðin framkvæmdastjóri EFÍA

Snædís Ögn Flosadóttir.
Snædís Ögn Flosadóttir.

Snædís Ögn Flosadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Eftirlaunasjóðs félags íslenskra atvinnuflugmanna, EFÍA.

Snædís hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 2006 og á eignastýringarsviði Arion banka frá árinu 2008, lengst af sem gæða- og verkefnastjóri. Nú síðast starfaði Snædís sem sérfræðingur í eignastýringu fagfjárfesta. 

Í fréttatilkynningu kemur fram að Snædís er með B.Sc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun. Snædís er jafnframt að leggja lokahönd á rannsóknarverkefni til meistaraprófs í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands en verkefni hennar fjallar um áhættustýringu í rekstri lífeyrissjóða. Maki Snædísar er Jökull Ingvi Þórðarson og eiga þau þrjú börn.

Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna, EFÍA, var stofnaður árið 1974 og var reistur á grunni Lífeyrissjóðs FÍA. EFÍA er sjálfstæður sjóður en Arion banki annast rekstur og eignastýringu lífeyrissjóðsins á grundvelli rekstrarsamnings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert