Ætla að efla fjarskiptarannsóknir

Kristinn Andersen, Jón Atli Benediktsson, Orri Hauksson og Þór Jes …
Kristinn Andersen, Jón Atli Benediktsson, Orri Hauksson og Þór Jes Þórisson. Mynd/Háskóli Íslands

Háskóli Íslands og Síminn hefja nú samstarf um að efla rannsóknir og kennslu á sviði fjarskiptaverkfræði en samkomulag þeirra á milli var undirritað nýlega. Mun Síminn styrkja háskólann til þess að auka námsframboð á sviði fjarskiptagreina og efla rannsóknir hérlendis og í alþjóðlegu samstarfi á því sviði.

Í tilkynningu frá HÍ segir að háskólinn vinni stöðugt að því að efla tengsl sín við atvinnulífið og er samstarfið við Símann liður í því.

„Háskólinn leggur áherslu á öflugt samstarf við atvinnulífið og vinnur að því að auka námsframboð sitt á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði þar sem fjarskipti eru mikilvægt svið,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor HÍ í tilkynningu frá skólanum og bætir við. „Háskólinn væntir þess að með rannsóknarsamstarfi við Símann verði unnið að lausn verkefna sem hafa fræðilegt og menntunarlegt gildi, auk hagnýtrar þýðingar fyrir Háskólann, fjarskiptafyrirtæki og samfélagið.“

Sæmundur E. Þorsteinsson fjarskiptaverkfræðingur hefur verið ráðinn til að stýra kennslu í fjarskiptaverkfræði og byggja upp rannsóknarstarf á sviði fjarskipta. Hann sinnti rannsóknum í fjarskiptum í mörg ár og hefur auk þess kennt við HÍ, HR og Rafiðnaðarskólann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert