Fráveituvatnið hefur lítil áhrif

Hreinsistöð við Klettagarða.
Hreinsistöð við Klettagarða. Ljósmynd/OR

Nýbirtar niðurstöður úr rannsóknum á sjó, sjávarbotni og kræklingi í Faxaflóa sýna að fráveituvatn úr hreinsistöðvum Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum hefur lítil sem engin áhrif á umhverfið. 

Reglugerðir vegna fráveituhreinsana eru rýmri á Íslandi heldur en í flestum öðrum löndum þar sem sjórinn hefur verið skilgreindur síður viðkvæmur, segir í fréttatilkynningu um málið frá Orkuveitunni. Í tilviki Orkuveitu Reykjavíkur er fráveituvatni dælt um fjóra til fimm kílómetra út í Faxaflóa þar sem sjórinn sér um að brjóta það niður og dreifa ögnum í vatninu.

Kræklingurinn hreinni en í Hvalfirði

Rannsóknirnar eru þrjár og voru gerðar á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands; viðtakarannsókn, þar sem sjórinn var efnagreindur, setrannsókn, þar sem sjávarbotninn  var skoðaður og sýndi fram á að efni eru ekki að setjast á botninn sökum mikilla sjávarstrauma, og kræklingarannsóknir. Þar eru gildrur settar ofan á dreifistúta til að hafa fráveituvatnið sem mest og kræklingarnir síðan greindir. Minna af aðskotaefnum mældist til að mynda í sýnunum heldur en í þeim kræklingi sem notaður er til viðmiðunar í Hvalfirði og Breiðafirði.

 Rannsóknirnar eru gerðar í samræmi við starfsleyfi Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fráveitukerfi. Sýnataka var gerð á sjó þar sem fráveituvatn streymir frá hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða, á árunum 2008 til 2011. Rannsóknirnar eru liður í víðtækum viðtakarannsóknum og auk greininga á sjávarvatni voru gerðar rannsóknir á kræklingum og með setgildrum.

Íris Þórarinsdóttir, fagstjóri fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur, segir niðurstöðurnar afar ánægjulegar.

„Þetta eru mjög góðar niðurstöður og koma allar mjög vel út,“ er haft eftir henni í fréttatilkynningu. „Það er ljóst að verklagið sem við höfum tamið okkur virkar eins og það á að gera – föst efni eru hreinsuð út í hreinsistöðvum og sjórinn sér svo um að brjóta niður það sem hann á að brjóta niður.“

Niðurstöðurnar í heild má lesa hér, hér og hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert