Kanínur dreifa sér um höfuðborgina

Kanína í skóglendi við Rauðavatn í Reykjavík en þær finnast …
Kanína í skóglendi við Rauðavatn í Reykjavík en þær finnast víða. mbl.is/GSH

Kanínur hafa verið þekktar í og við borgarlandið í áratugi en orð hefur verið haft á því á síðustu árum að þær séu að færa sig upp á skaftið. Engar tölur liggja fyrir um stærð stofnsins en þær má finna á flestum grænum svæðum í og við höfuðborgarsvæðið.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, sviðsstjóri dýravistfræði hjá Náttúrufræðistofnun, segir í Morgunblaðinu í dag að kanínur þrífist í nálægð við mannfólkið. „Þær eru hálfvillt dýr, hafa sloppið úr haldi. Þær lifa víða, villtar og hálfvilltar. Það er alþekkt vandamál víða um lönd að þær eru að trufla einhverja ræktun, menn eru viðkvæmir fyrir því.“

Kanínurnar þrífast mjög illa yfir veturinn en þó lifir einhver hópur núorðið þar sem vetur hafa mildast. „En fólk er alltaf að sleppa þessum blessuðu kanínum þegar þær ná vissri stærð, þannig að þetta er stöðug uppspretta,“ segir Kristinn.

Kanínurnar eru friðaðar nema að sérstök undanþága sé gerð, en slíkt hefur gerst. Kristinn segir enga vistfræðilega ógn standa af þeim, nema hugsanlega þar sem þær leggist á lundaholur. Átak var gert í Vestmannaeyjum til þess að fækka kanínum en einnig hafa kanínur verið skotnar í Reykjavík, í Árborg og á Akureyri.

Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, segir að skipulögð hafi verið talning á kanínum í borginni í vetur en þá hafi gengið illa að finna þær utan Elliðaárdals, þar sem þær eru sérstaklega fóðraðar. bso@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert