„Kippt út úr hringiðu lífsins“

Katrínar Bjarkar Guðjónsdóttir er nú útskrifuð af gjörgæslu eftir seinni …
Katrínar Bjarkar Guðjónsdóttir er nú útskrifuð af gjörgæslu eftir seinni heilablæðinguna. Ljósmynd/bb.is

Vinir og vandamenn hinnar 22 ára Katrínar Bjarkar Guðjónsdóttir hafa stofnað söfnunarsjóð til að létta undir með henni og fjölskyldu hennar. Á Facebook síðu sjóðsins segir frá því að í nóvember í fyrra hafi henni verið „kippt út úr hringiðu lífsins“ þegar hún fékk heilablæðingu. 

Við tók löng og mikil endurhæfing sem hafði gengið mjög vel fram til 14. júní. „Því var áfallið þann dag afar mikið, þegar flytja þurfti hana með sjúkraflugi suður eftir aðra heilablæðingu,“ segir á Facebook síðunni. Þar segir einnig að fjölskylda hennar sem og tengdafjölskylda, með unnusta hennar í broddi fylkingar, hafi verið nær samfellt við hlið hennar frá upphafi veikinda hennar.

„Katrín hefur notið rækilegs stuðnings foreldra sinna, Bjarnheiðar Jónu Ívarsdóttur og Guðjóns Guðmundssonar frá Flateyri. Unnusti hennar Ásgeir Gíslason hefur staðið vaktina með Katrínu á sérlega aðdáunarverðan hátt, sem og fjölskylda hans frá Ísafirði. Systur hennar og fjölskyldur þeirra hafa einnig tekið mikinn þátt í þessu ferli öllu, sem og fjölmargir aðrir velunnarar.“ 

Eftir seinni heilablæðinguna var gerð aðgerð á Katrínu sem heppnaðist vel að sögn lækna. Fyrir nokkrum dögum var hún flutt af gjörgæslu en því miður þykir ekki ólíklegt að enn geti orðið sveiflur á líðan hennar, enda sé hún enn mikið veik auk þess sem tjáning hennar er takmörkuð.

Fyrir seinni heilablæðinguna höfðu vinir og vandamenn fjölskyldunnar safnað „nokkrum aurum“ í gegnum lokaða Facebook síðu. Vilja þau leggja fjölskyldunni lið enda fylgir bataferlinu mikið vinnutap og kostnaður og eftir fjölda áskoranna var ákveðið að opna söfnunina á Facebook.

„Það kostar sterk bein og miklar fórnir að fylgja sínum nánustu í slíkum erfiðleikum. En það er heldur engin önnur leið fær, vonin og samkenndin, tiltrúin á að snúa megi hlutum til betri vegar er svo sterk hjá fjölskyldunni að maður hrífst með. Læknar hafa líka bent á mjög mörg tilvik um álíka veikindi svona ungs fólks, þar sem unnt var að sigrast á álíka áfalli, með með þrotlausri vinnu og endurhæfingu. Á það trúum við. Um það biðjum við til almættisins, að Katrín verði þeim hópi.“

Aðstandendur söfnunarinnar biðja alla þá sem eru aflögu færir að leggja fjölskyldunni lið og aðstoða þannig við endurhæfingu Katrínar með frjálsum framlögum. 

Styrktarreikningur hefur reikningsnúmerið 0515-14-410407 og kennitöluna 470515-1710

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert