Minna blóð í Blóðbankanum en oft áður

Blóðbankinn hvetur fólk til að kíkja í heimsókn áður en …
Blóðbankinn hvetur fólk til að kíkja í heimsókn áður en það fer í sumarfrí. mbl.is/Ómar

„Við höfum oft farið inn í sumarið með aðeins stærri lager en í ár. Staðan er viðunandi en við þurfum að fá reglulega inn blóðgjafir.“ Þetta segir Vigdís Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður blóðsöfnunar hjá Landspítalanum aðspurð um stöðuna í Blóðbankanum. 

Blóðbankinn hefur nú biðlað til fólks að koma og gefa blóð áður en það fer í sumarfrí. „Á sumrin er það bara oft þannig að fólk er á faraldsfæti og gleymir okkur kannski. Við viljum þess vegna minna fólk á að kíkja til okkar,“ segir Vigdís.

Vigdís segir að þetta sumarið hafi lagerstaðan verið aðeins lægri en oft áður og að það gæti hugsanlega tengst verkföllum félagsmanna BHM og hjúkrunarfræðinga sem stóðu í vor og í byrjun sumars. „Það er alltaf mismunandi hvernig er í árferði en ég hugsa að verkföllin hafi eitthvað haft áhrif,“ segir hún.

Blóðbankinn stendur við Snorrabraut 60 og er opinn mánudaga 11-19, þriðjudaga og miðvikudaga frá klukkan 8 til 15 og á fimmtudögum frá klukkan 8 til 19. Lokað er á föstudögum. Vigdís minnir einnig á að hægt er að gefa blóð á sjúkrahúsinu á Akureyri.

Blóðbankinn við Snorrabraut.
Blóðbankinn við Snorrabraut. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert