Ríkið sýknað af kröfum Þórðar

mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfum Þórðar Más Jóhannessonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Straums, um að úrsvarsstofn hans vegna ársins 2007 yrði lækkaður um tæpar 600 milljónir króna.

Þórður höfðaði mál gegn ríkinu þar sem hann fór fram á að úrskurður yfirskattanefndar frá 31. desember 2013 og úrskurður ríkisskattstjóra frá 17. október 2012 yrðu felldir úr gildi og tekjuskatts- og útsvarsstofn hans gjaldárið 2007, eins og hann var ákveðinn af yfirskattanefnd, yrði lækkaður um samtals 596.091.170 krónur. Til vara fór Þóður fram á að úrskurðunum yrði breytt þannig að tekjuskatts- og útsvarsstofn hans yrði lækkaður um 508.499.541 krónu. Þá fór hann fram á að ríkið yrði dæmt til þess að greiða málskostnað hans.

Ríkið gerði á móti aðallega þá dómkröfu að vera sýknað af öllum kröfum Þórðar og að vera dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins. Héraðsdómur féllst sem fyrr segir á kröfu ríkisins og dæmdi Þórð til þess að greiða málskostnað þess upp á 900 þúsund krónur.

Málið snerist um það með hvaða hætti ætti að skattleggja tekjur af sölu bréfa í Straumi sem voru í eigu eignarhaldsfélags Þórðar, Brekku ehf. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að tekjur félagsins vegna sölunnar væru réttilega ákvarðaðar sem skattskyld hlunnindi hans í úrskurði yfirskattanefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert