Þyrluumferð spillir hálendiskyrrð

Þyrla Norðurflugs við Fimmvörðuháls.
Þyrla Norðurflugs við Fimmvörðuháls. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil þyrluumferð við Þórsmörk hefur áhrif á kyrrð og upplifun gesta á svæðinu að sögn ferðamanns sem hafði samband við mbl.is vegna málsins. Segir hann þyrlur hafa flogið allt að fjórar ferðir yfir svæðið á einni klukkustund um helgina með talsverðum hávaða. Skúli H. Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar, staðfestir að þyrluumferð hafi aukist talsvert með tilheyrandi áreiti.

Skúli H. Skúlason er framkvæmdastjóri Útivistar.
Skúli H. Skúlason er framkvæmdastjóri Útivistar. mbl.is/Ernir

Varð áberandi í gosinu á Fimmvörðuhálsi

„Það er vissulega umhugsunarefni hvort setja eigi einhverjar reglur um þetta,“ segir Skúli. „Þetta byrjaði að verða áberandi í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Umferðin er kannski ekki svona slæm alla daga, en þó þannig að fólk taki vel eftir þessu.“

Útivist býður upp á ýmiss konar ferðir um hálendið auk þess að halda úti nokkrum skálum, t.a.m. Fimmvörðuskála og aðstöðunni við Bása á Goðalandi.

Hann segir þyrluflugið óneitanlega setja leiðinlegan svip á þá kyrrð sem fólk komi til að finna á hálendinu. „Það er engum blöðum um það að fletta. Eflaust má hins vegar finna einhverjar leiðir til að setja reglur þannig að hægt sé að reka þyrluþjónustuna án þess að hún valdi truflunum á borð við þær sem oft vilja verða,“ segir Skúli. Hann segir málið hafa verið rætt innan „Vina Þórsmerkur“, félagssamtaka ferðaþjónustuaðila á svæðinu auk sveitarfélagsins og skógræktarinnar, en þó hafi ekki verið ákveðið að grípa til neinna aðgerða.

Skúli telur þyrluumferðina geta spillt kyrrð hálendisins.
Skúli telur þyrluumferðina geta spillt kyrrð hálendisins. mbl.is/RAX

Ýmsar flugferðir í boði

Nokkur ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á þyrluferðir á svæðinu, en Helicopter.is, Helo.is og Reykjavík Helicopters auglýsa öll slíkar ferðir á vefsíðum sínum. Þannig býður Helicopter.is upp á svokallaðan „Essential Iceland“ hring, en flogið er yfir Þingvelli, Geysi, Gullfoss, Heklu, Landmannalaugar, Þórsmörk og Eyjafjallajökul. Ferðin er sögð taka um fjórar klukkustundir og kostar tæplega 160 þúsund krónur á mann.

Hin fyrirtækin tvö bjóða sambærilegar ferðir á borð við „Diamond Tour“ og „Natures Highlights“. Á vef Helo.is segir að um sé að ræða „dramatíska og upplýsandi ferð“ þar sem ferðalangar sjái hápunkta íslenskrar náttúru á örfáum klukkustundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert