Bleiki liturinn táknar fjör

Bleika rútan ferðast hringinn í kringum landið Bleika fjörið Hópurinn …
Bleika rútan ferðast hringinn í kringum landið Bleika fjörið Hópurinn sem ferðast með rútunni er á vegum Rosa Bussarna. Hann mun einnig staldra við í Færeyjum í þrjá daga. Fáir Íslendingar nýta sér þjónustuna, sem er vel þekkt meðal frænda okkar í Skandinavíu. Morgunblaðið/Jónas Erlendsson

Vegfarendur á þjóðvegi 1 hafa margir hverjir rekið upp stór augu þegar ekið er framhjá bleikri rútu sem virðist drifin áfram af gleðinni einni saman. Rútan er frá fyrirtækinu Rosa bussarna í Svíþjóð, en ferðalangar á vegum fyrirtækisins ferðast yfirleitt einir og þekkjast ekkert innbyrðis áður en haldið er af stað í langferð.

Linda Runars er leiðsögumaður hópsins. Hún ber íslenskt nafn en er frá Svíþjóð og talar reiprennandi íslensku eftir veru hér á landi fyrir 20 árum. Hún segir að hópurinn hafi komið til landsins með Norrænu og ekið um landið norðanvert og áfram hringveginn. Linda vinnur á skrifstofu fyrirtækisins í Svíþjóð. Hópurinn gisti á Höfn í nótt eftir að hafa skoðað Suðurlandið í gær en ljósmyndari Morgunblaðsins hitti hópinn við Dyrhólaey.

„Það eru til margar sögur um það af hverju rúturnar okkar eru bleikar. Sumir segja að það hafi verið til að fá konur til að ferðast með. Núna eru einmitt fleiri konur en karlar sem ferðast með okkur um allan heim.

Önnur saga segir að liturinn hafi verið valinn því hann merkir ekkert nema fjör. Þegar ekið er um Pakistan eða Afganistan tengist bleiki liturinn engu hernaðarlegu. Sjálfri finnst mér bleikur vera skemmtilegur litur.“

Eignast fjölskyldu

Hún segir að ferðalangarnir tengist böndum til eilífðar eftir ferðalag með rútunni.

„Þau sem ferðast með okkur eru að ferðast ein og þekkja engan um borð. Eftir nokkrar vikur er hópurinn aftur á móti orðinn eins og ein stór fjölskylda.“

Linda segir að margir Svíar hafi viljað fara með í ferðina til Íslands og þetta sé því líklega fyrsta ferðin hingað af mörgum.

„Ferðin var eftirsótt og margir vildu koma með. Hópurinn er mjög ánægður með það sem hann hefur séð. Þetta er búið að vera mikið ævintýri, það hefur verið skítakuldi en við höfum drukkið malt og appelsín og lýsi og borðað harðfisk, skyr og flatbrauð. Við reynum að gera hluti sem alvöru fólk gerir. Það var gaman að prófa þessar vörur en fólki fannst erfitt að borða skyrið. Ég benti því á að setja smá mjólk út í, þá er þetta allt í lagi.“

Sýnir hópnum alvöru Ísland

Svíinn Anders Eriksson stofnaði Rosa Bussarna árið 1972. „Þetta er fyrirtæki sem var stofnað þegar hann ætlaði að keyra til Nýju-Delí frá Svíþjóð. Þá voru margir að ferðast á puttanum og hann bauð fólki með sem borgaði fyrir daginn sem það var með í rútunni. Hann vinnur enn í fyrirtækinu,“ segir Linda Runars.

Hún þekkir vel til Íslands, en fyrir tuttugu árum kom hún hingað til lands, byrjaði sem au pair og ílentist síðan hér á landi. Hún breytti nafninu sínu í Linda Rúnarsdóttir en notast við Runars í dag.

„Ég vann á Bíó barnum og Hótel Íslandi. Ísland er frábær staður. Ég get líka sýnt hópnum landið, þarf ekki bara að fara Gullna hringinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert