„Ég stóð skyndilega aleinn á kilinum“

Þröstur Leó Gunnarsson, háseti og leikari, við höfnina á Bíldudal …
Þröstur Leó Gunnarsson, háseti og leikari, við höfnina á Bíldudal í gær. Hann var einn fjögurra bátsverja um borð í Jóni Hákoni BA 60. mbl.is/Helgi Bjarnason

Skipverjarnir þrír sem björguðust þegar fiskibáturinn Jón Hákon frá Bíldudal sökk fyrirvaralaust í blíðskaparveðri úti af Aðalvík á þriðjudagsmorgun telja að eitthvað eða einhver hafi vakað yfir þeim.

Einn skipverjanna, hinn þjóðkunni leikari Þröstur Leó Gunnarsson, segir að þetta sé tilfinning sem ekki sé hægt að útskýra nánar. Þröstur komst á kjöl og togaði tvo félaga sína upp úr sjónum, Björn Magnússon skipstjóra og Guðmund Rúnar Ævarsson stýrimann. Fjórði maðurinn, Magnús Kristján Björnsson, drukknaði.

Biðu á milli vonar og ótta

„Ég veit ekki hvernig ég komst á kjöl, vissi ekki fyrr en ég stóð þar,“ segir Þröstur Leó. „Ég átti að koma upp til að hjálpa þeim. Það er bara svoleiðis.“

Þremenningarnir gátu ekki gert vart við sig og biðu milli vonar og ótta eftir hjálp í nærri klukkustund. Þeir voru í miklum lífsháska.

Lítill bátur, Mardís, kom fyrstur á slysstað og bjargaði skipverjunum. Svo vill til að Björn skipstjóri á dóttur sem heitir sama nafni og báturinn. Engin skýring hefur enn fengist á því hvað varð þess valdandi að skipið sökk svo óvænt. Hrein ráðgáta er hvers vegna hvorki björgunarbátarnir né björgunarhringirnir um borð flutu upp.

Þeir hafa engar skýringar á því hvað gerðist. Ekki er vitað til þess að mistök hafi verið gerð, allt virðist hafa gengið eðlilega fyrir sig. Ekki hafi verið sjór í lestinni því nýlega var búið að lensa. Ekki hafi veiðarfærin dregið hann niður því þau voru komin á dekk.

Þegar bátar farast hugsa sjómenn gjarnan um það hvað megi bæta til að draga úr hættunni. Þröstur rifjar upp að hvorki björgunarbátar né björgunarhringir hafi flotið upp. Tveir björgunarbátar voru um borð, frá sitthvoru fyrirtækinu, og þeir eru með sjálfvirkan sleppibúnað sem á að skjóta þeim út þegar skipið sekkur. Björgunarbátarnir eru helsta björgunartæki sjómanna þegar bátar sökkva. Eitthvað hefur bilað þar. Björgunarhringirnir liggja ofan í grind og eru því fastir þegar bátur fer á hvolf.

Ítarleg umfjöllun er um sjóslysið í Morgunblaðinu í dag 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert