Hjálpar að mynda utanvegaakstur

„Þessi mál eru alltaf kærð til lögreglunnar en sönnunarbyrðin í þeim hefur gjarnan viljað vera erfið. Það hefur hins vegar reynst vel þegar fólk hefur til dæmis náð myndum af utanvegaakstri með myndavélum eða símunum sínum. Það hefur hjálpað mikið,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, í samtali við mbl.is en utanvegaakstur, ekki síst á hálendinu, er viðvarandi vandamál hér á landi.

Fréttavefurinn ræddi í gær við Guðmund Inga Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Landverndar, um utanvegaakstur sem lagði áherslu á mikilvægi fræðslu til þess að koma í veg fyrir hann. Fólk virtist ekki alltaf gera sér grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar utanvegaaksturs gætu hæglega orðið. Teldu sárin fljótt lagast af sjálfu sér. Það væri hins vegar sjaldnast raunin. Þá þyrfti að veita auknu fjármagni til málaflokksins.

„Það sem er í raun gagnlegast fyrir okkur er að borgararnir séu mjög virkir í því að hafa augun hjá sér,“ segir Guðfinnur. Það geti breytt öllu ef mynd næst af bifreiðinni sem í hlut á. Þegar vart verður við utanvegaakstur, annað hvort þegar hann raunverulega á sér stað eða ummerki um hann finnast, er rétt að snúa sér til lögreglu. Málin koma síðan til Umhverfisstofnunar sem leggur mat á hvert tilfelli. Ef um augljósan utanvegaakstur er að ræða þá fara málin til rannsóknar hjá lögreglunni.

Ekki bara sandur sem lagast í næsta foki

„Við reynum að gera okkar besta til þess að upplýsa fólk í þessum efnum. Við höfum til að mynda gefið út bæklinga um utanvegaakstur sem dreift er á ferðamannastaði og aukið merkingar. Engu að síður á þetta sér alltaf stað annað slagið,“ segir hann. Stundum beri erlendir ferðamenn við þekkingarleysi í þeim efnum en engu að síður sé staðreyndin sú að víðast hvar erlendis sé utanvegaakstur bannaður. Það þurfi því ekki að koma á óvart hér á landi.

Umhverfisstofnun hefur verið í samstarfi við fjölmarga aðila við að upplýsa ferðamenn um að utanvegaakstur sé bannaður. Til að mynda Samtök ferðaþjónustunnar, Vatnajökulsþjóðgarð, Ríkislögreglustjóra, Vegagerðina, ferjuna Norrænu og fulltrúa bílaleiga varðandi útgáfu veggspjalds og dreifirits um utanvegaakstur til að fræða ferðamenn um boð og bönn. 

„Stundum heyrir maður það sjónarmið að þetta sé kannski bara einhver sandur og hjólförin lagist í næsta sandfoki eða eitthvað slíkt,“ segir Guðfinnur. Það segi sig sjálft að ef allir ætluðu að aka utanvegar eins og þeim sýndist endaði það aðeins á einn veg. „Ef þetta væri leyft þá væri það leyft öllum og þá þyrfti ekkert að spyrja að leikslokum. Fyrir vikið höfum við tekið eins hart á þessu og við höfum getað gert. Sem betur fer er ekki um að ræða fjölmennan hóp sem stundar utanvegaakstur en þetta gerist engu að síður reglulega.“

Guðfinnur Sigurvinsson upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar.
Guðfinnur Sigurvinsson upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert