Horfa til framtíðar á fundum í Brussel

Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og leiðtogar Evrópusambandsins munu horfa fram á veginn á fundum sínum í Brussel í dag og á morgun og ræða hvernig samtarfi Íslands og sambandsins verði háttað héðan í frá.

Að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, hefur verið sameiginlegur skilningur milli Íslands og ESB á því hver staðan nú er, eftir að ríkisstjórnin tilkynnti sambandinu að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki, og hvert menn vilji fara. „Það er mjög gott að fá nú tækifæri til að fara vel yfir það,“ segir hann.

Forsætisráðherra mun hitta Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í dag og Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs sambandsins, í fyrramálið. Þetta eru fyrstu fundir forsætisráðherrans með leiðtogunum og eins fyrstu opinberu fundir hans í Brussel frá því árið 2013.

Á fundunum er ætlunin fyrst og fremst að ræða framtíðina og þau málefni þar sem mögulegt er að styrkja samstarf Íslands og ESB.

„Það er úr mörgu að velja, til dæmis EES-samningurinn og efnahagsmál. Síðan hefur verið horft til þátta eins og norðurslóða og orkumála, til dæmis jarðhitamál þar sem Íslendingar hafa ýmislegt fram að færa,“ segir Jóhannes Þór í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Forsætisráðherra fundar með leiðtogum ESB

Sigmundur Davíð forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert