„Pabbi var brjálaður og reiður“

Hæstiréttur staðfesti í vikunni niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra um að maður sæti nálgunarbanni í þrjá mánuði. Má hann ekki koma nálægt fyrrverandi sambýliskonu né heldur reyna að nálgast hana rafrænt eða á annan hátt.

Í greinargerð frá lögreglu barst tilkynning að kvöldi föstudagsins 19. júní um heimilisofbeldi. Þegar lögregla kom á vettvang var konan á heimilinu tveimur börn sínum, sem eru tæplega sex ára og tæplega þriggja ára. Ofbeldismaðurinn var hins vegar farinn af heimilinu. 

Samkvæmt framburði konunnar var hún upp í rúmi á heimili sínu ásamt börnum sínum er fyrrverandi sambýlismaður og barnsfaðir barði fast á útihurðina.  Vegna þessara aðfara hafi börnunum brugðið og öskrað og hágrátið.  Konan hringdi í vinkonu sína og beðið hana um að hringja á lögreglu, en eftir það opnað útihurðina örlítið og tilkynnt manninum að hún myndi ræða við hann síðar þegar börnin væru ekki grátandi. 

Maðurinn fór ekki að tilmælum hennar heldur rykkti upp hurðinni og „grýtti“ konunni frá og á vegg, en í framhaldi af því gengið inn í íbúðina. Á meðan á þessu hafi staðið hafi börnin staðið hjá hágrátandi.  Samkvæmt frásögn konunnar hafði maðurinn  eftir að hann var kominn inn í íbúðina kýlt í vegg, en við það hefði keramiksdiskur fallið á gólfið og brotnað. 

Að þessu loknu rúllaði hann sér sér sígarettu og þegar hún ítrekað bað hann um að fara út brást hann við með því að ýta henni frá.

 Vegna þessa fór hún inn í herbergi til barnanna en hann fylgdi á eftir og „brjálast ennþá meira“ en síðan rokið út úr íbúðinni.  Hún læsti útihurðinni en hann sparkaði og kýldi í hurðina þar til að hún opnaði á ný.  Eftir það hrinti hann henni frá sér en leitaði í allri íbúðinni að kveikjara og gripið til konunnar að börnunum ásjáandi, en síðan skyndilega horfið á braut.

Í greinargerð lögreglustjóra er greint frá því að greinileg ummerki hafi verið á vettvangi, þ. á m. sýnileg sprunga á vegg, en einnig glerbrot á gólfi, en þar um er vísað til framlagðra ljósmynda lögreglu.  Skráð er í lögregluskýrslu að er lögreglumenn voru á vettvangi hefðu börnin haft á orði að pabbi þeirra, varnaraðili, hefði verið „brjálaður og reiður“ og að hann hefði brotið vegginn.

Samkvæmt gögnum var maðurinn handtekinn af lögreglu þar sem hann var á reiðhjóli eigi langt frá heimili brotaþola.  Greint er frá því að hann hafi verið með sýnilega bólgu á hægri hendi og greinilega undir áhrifum lyfja eða örvandi efna, en að auki hafi verið kannabislykt frá vitum hans.  Fram kemur að maðurinn hafi verið færður á lögreglustöð þar sem tekið var úr honum blóðsýni til rannsóknar, en í framhaldi af því hafi hann verið vistaður í fangaklefa.

Fólkið sleit sambúð í desember í fyrra og var um sameiginlegt forræði að ræða.

Meðal gagna sem lögð voru fram eru fyrri afskipti lögreglu. Þannig er vísað til dagbókarfærslu frá 13. janúar 2013, en hún varðar tilkynningu til lögreglu um hávaða og læti frá þáverandi heimili þeirra að morgni dags.  Greint er frá því að á vettvangi hafi lögreglumenn m.a. séð glerbrot úr kertastjaka á gólfi. 

Þá er vísað til dagbókarfærslna lögreglu frá 17. apríl og 5. október 2014 vegna tilkynninga um hávaða og læti frá heimili þeirra.  Einnig er vísað til fjögurra mála frá árinu 2015.  Er fyrsta málið frá 27. janúar sl., en þá var tilkynnt um hávaða og rifrildi þar sem þau komu við sögu.  Hið næsta er frá 21. febrúar sl., en í færslu er greint frá afskiptum lögreglu af heimili mannsins þar sem hann virðist hafa verið einn með nefndum börnin, en að mati lögreglumanna var hann þá verulega sljór og þvoglumæltur.  Vegna þessa atvik hafi barnaverndarnefnd verið gert viðvart.  Þá er í dagbókarfærslu skráð atvik um heimilisófriði á sama stað þann 25. febrúar sama ár.  Loks er í dagbókarfærslu frá 16. mars sl. greint frá aðkomu lögreglu á heimili mannsins þar sem hann hafi legið meðvitundarlaus á gólfi íbúðar sinnar, en börnin þá verið í umsjá hans. Greint er frá því að er hann komst til sjálfs síns hafi hann verið mjög lyfjaður. Vegna þess atviks hafi barnaverndarnefnd verið gert viðvart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert