Biðraðir vegna tafa við ný öryggishlið

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurgeir

Ástæður þess að miklar tafir hafa orðið á Keflavíkurflugvelli eru meðal annars uppsetning á nýjum öryggisleitarlínum, þjálfun starfsfólks og mikill fjöldi ferðamanna um stöðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugvellinum í dag, en í gær sagði mbl.is frá því að aðeins eitt öryggishlið hafi verið notað þegar mikill fjöldi ferðamanna beið við öryggisleitina.

Sagt er frá helstu álagstímum í tilkynningunni. Þessa dagana fer mikill fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll og hafa á álagstímum skapast raðir við öryggisleit brottfararfarþega. Hápunktur ferðasumarsins er nú í júlí og ágúst og búast má við því að stærstu dagana geti myndast biðraðir í flugstöðinni. Helstu álagstímar eru á morgnana, síðdegis og um miðnætti, stærstu dagar vikunnar eru fimmtudagar, föstudagar og sunnudagar.

Þá er ítrekað að ferðamenn séu hvattir til þess að mæta tímanlega í innritun, eða 2,5-3 klukkustundum fyrir brottför. Er það nokkuð lengri tími en áður hefur verið miðað við.

Í tilkynningunni er sagt að starfsfólk Isavia vinni nú hörðum höndum að því að koma nýjum öryggisleitarlínum í notkun sem fyrst, tryggja aukna mönnun í öryggisleit, klára þjálfun og dreifa álaginu eins og því verður við komið. Áhrifa af þessari vinnu er strax farið að gæta, en búast má við að það taki nokkurn tíma að ná jafnvægi á ástandið.

Myndir frá biðröðinni við öryggisleitina í gær.
Myndir frá biðröðinni við öryggisleitina í gær. Mynd/Brynhildur Björnsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert