Bjargvættur norðlenskra katta

Kettlingar eru fjörugar, krúttlegar og plássfrekar verur.
Kettlingar eru fjörugar, krúttlegar og plássfrekar verur. mbl.is/Skapti

Frá því að Ragnheiður Gunnarsdóttir stofnaði Kisukot heima hjá sér árið 2012 hefur hún bjargað hundruðum katta frá því að verða úti. Hún stendur ein að starfseminni og þarf að reiða sig á styrki frá einstaklingum til að halda rekstrinum gangandi. Hún myndi helst vilja koma á samstarfi við Akureyrarbæ en henni hefur verið mætt af áhugaleysi af hálfu bæjaryfirvalda.

Ragnheiður Gunnarsdóttir opnaði heimili sitt og stofnaði Kisukot, athvarf fyrir ketti á Akureyri árið 2012 því hún vildi bjarga köttum á vergangi. Sama ár var hún valin Norðlendingur ársins af lesendum Akureyri vikublaðs. Frá því að Kisukot var stofnað hefur hún bjargað nokkrum hundruðum katta frá því að verða úti. Sumir hafa komist aftur til síns heima eftir að hafa týnst, aðrir hafa fengið nýtt heimili og enn aðrir hafa eignast heimili í fyrsta skipti fyrir tilstilli Ragnheiðar.

Hún rekur Kisukot heima hjá sér þar sem hún hefur ekki fengið hentugra húsnæði fyrir reksturinn og bæjaryfirvöld hafa ekki sýnt starfseminni neinn sérstakan áhuga. Ragnheiður býr því verulega þröngt. „Álagið er ævinlega mest á sumrin. Núna er ég með 16 kettlinga og átta fullorðna í heimilisleit í Kisukoti,“ segir Ragnheiður. ,,Kettlingar eru yfirleitt subbur þannig að þetta er mikil vinna.“

Hún vinnur einnig í Dýraríkinu á Akureyri og því fer nær allur hennar tími í að aðstoða dýr.

Kattaveiðar í hesthúsahverfi

Hugmyndin að stofnun kattaathvarfs kviknaði að sögn Ragnheiðar þegar hún las fréttir um kattaveiðar bæjaryfirvalda fyrir nokkrum árum. „Þar kom fram að bærinn væri að veiða villiketti uppi í hesthúsahverfi á Akureyri og svæfa þá. Ég vildi þá sjá hvort ég gæti gert eitthvað annað en að láta greyin í svæfingu.“

Bæjarbúar eru mjög iðnir að hringja í Ragnheiði þegar kettir finnast sýnilega týndir eða heimilislausir. Hún tekur líka við slösuðum köttum og hefur þurft að svæfa slasaða ketti.

Dýralæknirinn hennar hleypur undir bagga með því að veita henni góðan afslátt af vinnu vegna svæfinga, geldinga og annarra læknisaðgerða. „Það bjargar mér alveg að vera ekki að borga fullt verð,“ segir hún og bætir við að hún einbeiti sér helst að útigangsköttum og villiköttum. Fólk hringi engu að síður mjög reglulega í hana og biðji hana um að taka við köttum. Kettirnir séu mun fleiri en hún ráði við.

Reiðir sig á styrki frá fólki

Rekstur kattaathvarfs getur verið kostnaðasamur og því hefur Ragnheiður stofnað styrktarreikning sem einstaklingar geta lagt frjáls framlög inn á. Þá er hægt að ganga í samnefnt félag og greiða hóflegt árgjald til að styðja við reksturinn. Ragnheiður segir líka nokkuð um að fólk gefi köttunum í athvarfinu fóður.

Róðurinn er engu að síður erfiður. „Það vantar nauðsynlega almennilegt athvarf fyrir kettina. Starfsemin verður að vera í sérútbúnu húsnæði, þannig að ég þurfi ekki að hafa allt inni hjá mér,“ segir Ragnheiður og bendir á að hægt væri að fá sjálfboðaliða til aðstoðar ef betra húsnæði væri í boði. Margir hafi boðist til að hjálpa og hún telur því ekki erfitt að finna sjálfboðaliða. „Þá gætu fleiri hugsað um starfsemina en bara ég.“

Samstarf við bæinn æskilegt

Ragnheiður hefur nokkrum sinnum komið að máli við bæjarfélagið en er jafnan mætt af áhugaleysi. Hún telur að samstöðu skorti meðal bæjaryfirvalda um hvernig eigi að taka á málinu.

„Langbest væri ef ég gæti unnið með bæjarfélaginu,“ segir hún og bendir á samstarf Kattholts og lögreglunnar í Reykjavík sem dæmi. „Í Reykjavík er fyrirkomulagið þannig að lögreglan fer með dauða ketti sem finnast úti á víðavangi á Dýraspítalann í Víðidal, sem kemur upplýsingum áfram til Kattholts, sem auglýsir svo kettina. Hér þyrfti að vera sambærilegt samstarf.“

Nýtur trausts kattaeigenda

Hún greinir frá því að kattaeigendur á Akureyri hringi stundum í hana ráðalausir til að spyrjast fyrir um týnda ketti, þó svo að hún fái engar upplýsingar um það frá dýraeftirliti bæjarins eða lögreglu um ketti sem ekið hafi verið yfir. „Oft virðist fólk ekki hafa hugmynd um að hér sé starfandi dýraeftirlit. Að sama skapi hringir fólk í mig en ekki í lögregluna, þó svo að það sé hlutverk lögreglu að fjarlægja ketti sem keyrt hefur verið á.“

Er því augljóst að kattaeigendur á Akureyri bera mikið traust til Ragnheiðar og leita helst til hennar ef eitthvað bjátar á.

,,Að sama skapi vantar okkur fjármagn. Ég hef oft þurft að fara með villiketti í svæfingu vegna veikinda og meiðsla. Samkvæmt lögum á bærinn að greiða fyrir þá þjónustu en hann harðneitar að greiða þegar dýralæknirinn kemur að máli við bæinn,“ bætir Ragnheiður við.

Brýnt að merkja og gelda

Hún brýnir fyrir fólki að gelda kettina sína. „Það er því miður allt of mikið af fólki sem gerir það ekki.“

Hún segir algengt að fólk biðji hana um að taka við kettlingum, en að þeir verði svæfðir að öðrum kosti. „Mér finnst ömurlegt að hugsa til þess að heilbrigð dýr séu svæfð en það er því miður mjög algengt.“

Einnig er afar mikilvægt að fólk örmerki kettina sína. „Ef dýraeftirlitið tekur kött sem er ómerktur, hefur eigandinn tvo daga til að sækja hann áður en eftirlitið má svæfa köttinn. Engu máli skiptir þó hann sé augljóslega heimilisköttur, þetta eru einfaldlega lögin.“

Vísar Ragnheiður í gildandi dýraverndunarlög. „Þetta er mjög sorglegt. Sumir kettir eiga það til að stinga af í nokkra daga og koma aftur en þá er eins gott að þeir séu örmerktir. Það borgar sig að merkja því að ég fann um daginn eiganda kattar sem hafði verið týndur í fimm ár. Þar sem hann var merktur gat ég rakið uppruna hans.“

Félag, sjóðir og fóstur

Ýmislegt má gera til að hjálpa. Hægt er að aðstoða við rekstur Kisukots og auka líkurnar á að hentugra húsnæði fáist fyrir reksturinn með því að skrá sig í samnefnt félag. Árgjaldið í félagið er 3.000 krónur og allir dýravinir eru boðnir velkomnir.

Félagið starfrækir einnig Minningarsjóð Alexöndru og Kettlingasjóð Mýslu. Styrktarsjóður Alexöndru er til minningar um Alexöndru sem Ragnheiður hjúkraði til heilsu árið 2011. Sjóðurinn fer í rekstur Kisukots og kaup á mat handa kisunum, búrum og sandi. Kettlingasjóðurinn er til minningar um villikettlinginn Mýslu sem lifði allt of stutt. Sjóðurinn hjálpar kettlingum á vergangi.

Þá má leggja frjáls framlög inn á styrktarreikning 0162-26-001100, kennitala: 021286-3039.

Loks er hægt að gerast fósturforeldri fyrir ketti sem komast ekki að í Kisukoti vegna þrengsla. Kisukot getur útvegað fósturforeldrum kattamat, kattaklósett og matardalla.

Allt er krökkt af köttum jafnt inni á sem og …
Allt er krökkt af köttum jafnt inni á sem og fyrir utan heimili Ragnheiðar. mbl.is/Skapti
Ragnheiður vill gjarna nýta aðstoð sjálfboðaliða en til þess þarf …
Ragnheiður vill gjarna nýta aðstoð sjálfboðaliða en til þess þarf hún betra húsnæði fyrir dýrin. mbl.is/Skapti
Þetta krútt hefði hugsanlega ekki fengið að lifa nyti Ragnheiðar …
Þetta krútt hefði hugsanlega ekki fengið að lifa nyti Ragnheiðar ekki við. mbl.is/Skapti
Ragnheiður segir brýnt að fólk geldi kettina sína.
Ragnheiður segir brýnt að fólk geldi kettina sína. mbl.is/Skapti
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert