Mannanöfn, áfengi og breytt klukka

Fyrir utan þingmál á nýafstöðnu löggjafarþingi sem kalla má hefðbundin voru nokkur slík sem vöktu sérstaka athygli fyrir þær sakir að vera á einhvern hátt öðruvísi. Bæði lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. Fæst þeirra voru endanlega afgreidd á þinginu og mörg hafa verið flutt oftar en einu sinni og verða hugsanlega flutt aftur eftir að þing kemur saman í haust. Mbl.is tók saman nokkur slík mál sem lesa má um hér fyrir neðan.

Það þingmál sem kannski vakti einna mesta athygli var þingsályktunartillaga þess efnis að ríkisstjórninni yrði falið að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund. Valin yrði hentug tímasetning innan árs frá samþykkt tillögunnar að lokinni kynningu. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar var Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, en aðrir flutningsmenn komu úr öllum öðrum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi. Tillagan fór í gegnum fyrri umræðu á Alþingi og gekk síðan til velferðarnefndar en var ekki afgreidd úr nefndinni.

Lagafrumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um afnám einkasölu ríkisins á áfengi vakti mikla athygli, en meðflutningsmenn þess komu auk Sjálfstæðisflokksins úr Framsóknarflokknum og Bjartri framtíð. Frumvarpið var tekið til fyrstu umræðu og að henni lokinni vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og afgreitt þaðan. Hins vegar var það ekki tekið til annarar umræðu. Vilhjálmur hefur boðað að frumvarpið verði flutt aftur.

Þingflokkur Pírata lagði fram þingsályktunartillögu um jafnt aðgengi að internetinu og var fyrsti flutningsmaður hennar Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. Samkvæmt henni skyldi ríkisstjórninni falið að vinna aðgerðaáætlun um jafnt aðgengi allra landsmanna að internetinu óháð búsetu og fjárhag með þeim rökum að aðgengi að internetinu ætti efalaust eftir að teljast meðal mikilvægustu mannréttinda framtíðarinnar. Tillagan fór í gegnum fyrri umræðu og var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar en ekki afgreidd úr henni.

Lagafrumvarp um að mannanafnanefnd yrði lögð niður og hver sem er gæti þar með til að mynda tekið upp ættarnafn vakti að sama skapi talsverða athygli. Fyrsti flutningsmaður þess var Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, en auk samflokksmanna hans komu aðrir flutningsmenn úr Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og frá Pírötum. Frumvarpið fór í gegnum allsherjar- og menntamálanefndar og var afgreitt úr henni. Málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar og hvatt til heildarendurskoðunar laga um mannanöfn.

Stofnun Landsiðaráðs var efni þingsályktunartillögu sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, var fyrsti flutningsmaður að en auk hennar voru meðflutningsmenn frá öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Tillagan gekk út á að fela forsætisráðherra að skipa starfshóp allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að undirbúa lagasetningu um hlutverk, skipan og starfssvið siðaráðs á landsvísu. Málið var tekið til fyrri umræðu og vísað til allsherjar- og menntamálanefndar en ekki afgreitt þaðan.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu um að umhverfis- og auðlindaráðherra yrði falið að finna leiðir til þess að draga úr notkun plastpoka hér á landi. Aðrir flutningsmenn komu frá öllum öðrum flokkum á þingi. Tillagan hlaut brautargengi á þingi og var samþykkt skömmu fyrir þinglok.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði fram þingályktun á nýjan leik ásamt nokkrum samflokksmönnum sínum um að kannaðir yrðu möguleikar og hagkvæmni þess að stofna áburðarverksmiðju hér á landi. Tillagan var rædd við fyrri umræðu og síðan vísað til atvinnuveganefndar en ekki afgreidd þaðan.

Þingsályktun þess efnis að umfang matarsóunar yrði metið hér á landi var einnig lagt fram og var fyrsti flutningsmaður hennar Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. Aðrir flutningsmenn komu úr öllum öðrum flokkum á þingi. Tillagan var rædd við fyrri umræðu á Alþingi og síðan vísað til atvinnuveganefndar en ekki afgreidd úr nefndinni.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vildi gera starfsemi spilahalla löglega hér á landi og var fyrsti flutningsmaður lagafrumvarps þess efnis. Starfsemin færi fram undir opinberu eftirliti og óheimilt væri að gera fjárhættuspil að atvinnu sinni. Aðrir flutningsmenn fyrir utan samflokksmenn hans komu úr Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð. Frumvarpið fór hins vegar hvorki til umræðu í þingsal né var því vísað til þingnefndar.

Frumvarp til breytinga á lögum um fjarskipti, þess efnis að óheimilt yrði að hljóðrita símtal án þess að tilkynna hinum aðilanum sérstaklega um það og afla samþykkis hans, var einnig lagt fram, en fyrsti flutningsmaður þess var Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Frumvarpið var hins vegar ekki rætt í þingsal og gekk ekki til nefndar.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, lagði fram frumvarp til laga um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi ásamt öðrum þingmönnum flokksins. Frumvarpið var tekið til fyrstu umræðu og síðan vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en ekki afgreitt þaðan.

Alþingi Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Alþingi Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ómar Óskarsson
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert