Panta kannabis áður en þeir lenda

Kannabisplöntur.
Kannabisplöntur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Ferðamönnum á leið til Íslands stendur til boða að panta kannabisefni fyrir komu og fá þau afhent við komu á Keflavíkurflugvelli.

Þá eru til erlendar síður sem aðstoða ferðamenn við að finna slík efni hérlendis og útskýra fyrir þeim viðurlög, verði þeir handteknir af lögreglunni með efnin.

Kannabistúrismi er vaxandi víða um heim, sérstaklega í löndum þar sem neysla kannabisefna hefur verið gerð lögleg, svo sem í Bandaríkjunum og Hollandi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Icelandair er eina flugfélagið í Evrópu með beint flug til þeirra ríkja Bandaríkjanna sem hafa lögleitt framleiðslu, sölu og neyslu kannabisefna samkvæmt athugun blaðamanns. Eru það Alaska, Colorado, Oregon og Washington-ríki, en hægt er að fljúga beint til ríkjanna frá Keflavíkurflugvelli í þotum Icelandair.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, kannaðist við þá staðreynd að Icelandair flygi til allra ríkja Bandaríkjanna sem hafa lögleitt kannabisefni. „Það var einhver sem áttaði sig á þessu hérna og grínaðist með þetta,“ segir Guðjón. „Um er að ræða svæði þar sem menntunarstig er nokkuð hátt og almennt frjálslyndi. Portland, Seattle, Denver: þarna býr frjálslynt og menntað fólk, sem er oft líka útivistarfólk.“

 „Bræla jónu eða tvær“

Í það minnsta einn íslenskur ferðavefur hefur ekki látið beint flug Icelandair til kannabishöfuðborga Bandaríkjanna framhjá sér fara. „Hvernig hljómar að taka inn alla áhugaverðustu staðina í Denver og nágrenni og bræla jónu eða tvær í rólegheitum svona rétt á meðan ekið er milli staða?“ Svona hljómar byrjunin á frétt á ferðasíðunni fararheill.is. Við lok fréttarinnar er lesendum síðan beint inn á leitarvél sem hjálpar þeim að finna hótelgistingu í Denver, stærstu borg Colorado-ríkis. Eigandi síðunnar kveðst ekki vita til þess að fólk hafi pantað ferðir til Denver í gegnum síðuna í því skyni að reykja kannabisefni en hann hefur þó heyrt fáeinar sögur af Íslendingum sem hafa farið til Bandaríkjanna til að neyta kannabisefna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert