Leiðtogar ESB virða ákvarðanir stjórnvalda

Sigmundur Davíð og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Sigmundur Davíð og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Ljósmynd/Leiðtogaráð ESB

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að forvígismenn Evrópusambandsins hafi góðan skilning á afstöðu íslenskra stjórnvalda og virði að fullu þær ákvarðanir sem stjórnvöld hér á landi hafa tekið.

„Ríki Evrópusambandsins eru okkar mikilvægustu viðskiptaaðilar og nánar vinaþjóðir. Að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki breytir engu þar um,“ segir hann.

Eins og kunnugt er tilkynnti ríkisstjórnin Evrópusambandinu í mars að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að sambandinu. Sigmundur Davíð fundaði í gær og í dag í fyrsta sinn með leiðtogum Evrópusambandsins eftir að aðildarferlið var slitið.

Hann fundaði í gær í Brussel með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og í morgun með Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs sambandsins.

Á fundum sínum með forvígismönnum Evrópusambandsins lagði forsætisráðherra áherslu á að horfa fram á við í samskiptum Íslands og ESB.  

„Við vorum sammála um að horfa til framtíðar og leggja áherslu á framkvæmd EES samningsins, sem reynst hefur samningsaðilum farsællega í rúm tuttugu ár. Við vorum einnig sammála um að þróa samstarf á öðrum sviðum, til dæmis á sviðum jarðhita, fiskveiðimála og norðurslóða þar sem Ísland hefur mikilsverða sérþekkingu fram að færa.

Samskipti Íslands og Evrópusambandsins eru því mjög góð og standa á traustum grunni. Við ræddum einnig efnahagsmálin á Íslandi og áætlun um afnám hafta sem horft er mjög til hér í Evrópu. Svo ræddum við vitanlega stöðu mála í Evrópu, sem óhjákvæmilega snýr að Grikklandi þessi misserin. Þar er uppi mjög snúin staða sem við vonum að leysist farsællega, enda mikilvægt fyrir alla þróun í Evrópu“, er haft eftir forsætisráðherra í fréttatilkynningu.

Heimsókn forsætisráðherra til Brussel lýkur í dag, en ráðherrann kynnti sér einnig starfsemi Eftirlitsstofnunar EFTA í ferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert