Losuðu sig við draslið

Magnea Arnardóttir og Þórhildur Magnúsdóttir
Magnea Arnardóttir og Þórhildur Magnúsdóttir mbl.is/Styrmir Kári

Magnea Arnardóttir og Þórhildur Magnúsdóttir tóku þá ákvörðun að losa sig við allt óþarfa drasl af heimilinu og lifa meðvituðu lífi með mínimalískum lífsstíl.

„Það var eitt sem við tókum fljótt eftir, við áttum meiri pening vegna þess að við vorum ekki að eyða í eitthvað sem við þurftum ekki. Og við gátum frekar farið á kaffihús með börnin okkar. Þetta snýst um að hafa meiri tíma með fólkinu sínu og átta sig á því að hlutir skipta þig ekki máli; þetta eru bara hlutir. Ef ég þarf að eyða miklum tíma í að þrífa íbúðina mína með því að færa til allt dótið sem er í henni eða raða í barnafatakommóðuna þá er ég að eyða minni tíma með fjölskyldunni minni. Þetta snýst um að eyða meiri tíma með fólkinu mínu og mig langar til að nota þetta til að einfalda líf mitt fyrst og fremst,“ segir Magnea.

Þær vilja báðar virkja börnin í þessum lífsstíl. Þórhildur segir að stundum sé verkefnið að ganga frá eitthvað sem börnin ráði ekki við því dótið sé svo mikið. Foreldrarnir séu kannski með eitthvert ákveðið skipulag sem börnin átti sig ekki endilega á. „Það er miklu auðveldara að ganga frá ef dótið er ekki of mikið,“ segir hún.

„Börnin mín vita það að ef þau fá eitthvað nýtt þá þurfum við að skoða hvað þau eigi,“ segir Magnea en þannig fari einn hlutur út í Rauða krossinn þegar annar kemur inn. „Dóttir mín sem er fjögurra ára skilur þetta fullkomlega,“ segir Magnea sem er fylgjandi því að útskýra þetta fyrir börnunum í stað þess að láta hlutina hverfa. Hún keypti dúkku handa dóttur sinni eitt sinn þegar hún kom heim frá útlöndum en hún átti enga. Hrifningin var mikil og þá sagði sú stutta: „Þá þurfum við að finna eitthvað til að setja í kassann.“

Þær segja báðar að börn þroskist í því sem þau leiki sér og eðlilega sé leikið mest með nýjustu hlutina. Ekki þýði að geyma allt hitt fyrir ókomnar kynslóðir.


Magnea og Þórhildur stofnuðu hópinn Áhugafólk um mínimalískan lífsstíl á Facebook en þangað eru allir áhugasamir velkomnir. Þær eru í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og þar er líka að finna góð ráð fyrir þá sem vilja tileinka sér þennan lífsstíl.

Magnea og Þórhildur.
Magnea og Þórhildur. Styrmir Kári
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert