Eins og að vera í fanginu á konunni sinni

Það er þoka á Siglufirði og von á vætu.
Það er þoka á Siglufirði og von á vætu. Ljósmynd/Sigurður Ægisson

Norðlægar áttir hafa valdið nokkrum kulda á norðanverðu landinu. Sveinn Björnsson, áttræður Siglfirðingur, er á því að sumarið þar hafi verið frekar kalt. „Það hefur verið þurrt en frekar kalt. Reyndar er von á vætutíð núna en kuldinn verður áfram hér,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is.

„Skaparinn er nokkuð klókur“

„Hitastigið hefur tekið mið af sjónum, sem er um 6 gráðu heitur. Þegar það liggur svona lengi í norðanátt verður hitastigið svipað og sjávarhitinn.“ Einstöku sinnum hafa komið ágætir sumardagar. „Inn á milli koma einstaka glennur til að halda móralnum í lagi. Skaparinn er nokkuð klókur hvað þetta varðar. Þegar hann sér að það þyrmir yfir fólk þá sendir hann eina glennu. 

Næsta vika verður góð fyrir gróðurinn. „Það er von á bleytu. Af því að áttin verður norðlæg verður enginn hiti í þessu og það væri gott ef þetta færi í 10 gráður. Ætli þetta verði ekki 7 gráður meðan þetta gengur yfir. Vegna þess að vindurinn kemur af hafi og sjórinn er það kaldur. Héðan er stutt í íshafið og við tökum bara mið af því.“

Kappklæddir ferðamenn

Sveini sýnist veðrið ekki hafa nein áhrif á straum ferðamanna í bæinn. „Þeir eru líka allir kappklæddir, í góðum úlpum og með hettur á höfðinu. Það hefur verið talsverður straumur ferðamanna í bæinn. Sumir koma með skemmtiferðaskipum og stoppa bara í nokkra tíma en aðrir dvelja lengur.“

Sveinn segir að fólk geti litið til fjalla og þá sjáist greinilega að tíðin hafi ekki verið góð í sumar. „Maður sér hvað snjórinn bráðnar seint í fjöllunum. Með þessu áframhaldi verður hellingur eftir í haust og það er góður mælikvarði á lofthitann. Þetta er búið að vera með því kaldara undanfarin fjögur ár.“

Fjöllin veita skjól

Hann segir að almennt sé gott skjól í bænum, enda veiti fjöllin gott skjól. „Ef það er austanátt eða norðaustan þá er yfirleitt logn eða lítill vindur og við verðum svo miklu minna vör við að það sé eitthvað að gerast fyrir utan okkur.“ Norðan og norðvestanáttin sé slæm, þá blæs beint inn fjörðinn. „Annars er mjög gott skjól. Þetta er bara eins og að vera í fanginu á konunni þinni, þarft bara að setja nefið á milli brjóstanna á henni og þá finnurðu ekki neitt, nema bara ilminn af þessari elsku. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert