Eldstæðið verður hluti af hótelinu

Ríflega 5 metra langt eldstæði sem grafið var upp við fornleifauppgröft í Lækjargötu á dögunum mun fá að standa og verður fellt inn í nýtt hótel Íslandshótela sem mun rísa á lóðinni á næstu árum. Útfærslan á framkvæmdinni verður unnin í samráði við Minjastofnun.

Óvíst er hvort langeldurinn verði hækkaður upp eða hægt verði að virða hann fyrir sér í gegnum glergólf en Ólafur Torfason, stjórnaformaður Íslandshótela, segir að eldstæðið eigi eftir að setja skemmtilegan svip á hótelið og að ýmsir möguleikar séu fyrir hendi til að teikna upp skálann og gera sögu staðarins skil. Einlægur vilji sé til að vanda til verka.

Eldstæðið er heillegt og þykir hafa varðveislugildi en þetta er einn stærsti langeldur sem grafinn hefur verið upp hér á landi. Minjarnar sem hafa komið í ljós við uppgröftinn þykja þó flestar hafa meira rannsóknagildi en varðveislugildi.

mbl.is kom við í Lækjargötunni í dag og skoðaði eldstæðið ásamt því að ræða við Lísbetu Guðmundsdóttur, fornleifafræðing, sem stýrir uppgreftrinum í Lækjargötu en eldstæðið er hluti af minjum sem komu óvænt í ljós á dögunum og eru taldar vera frá 10.-13. öld.

Sjá frétt mbl.is: Nýtt hótel í Lækjargötu verður opnað 2018

Sjá frétt mbl.is: Merkur bær úr felum við Lækjargötu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert