Yfir 100 utanvegaakstursbrot á ári

Ummerki um utanvegaakstur eru algeng víðsvegar um landið. Þessi mynd …
Ummerki um utanvegaakstur eru algeng víðsvegar um landið. Þessi mynd er frá söndunum undir Lómagnúpi. Arnar Hafsteinsson

Með meiri fræðslu, skilvirkara kynningarefni og aukningu í samtali landvarða og ferðafólks hefur tekist að draga úr utanvegaakstri á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Þrátt fyrir er gert ráð fyrir að á hverju ári séu yfir 100 atvik þar sem ferðamenn keyra utan vega, en að meðaltali enda aðeins um fimm þeirra með kæru og sekt. Þetta segir Jóhann Katrín Þórhallsdóttir, hálendisfulltrúi hjá Vatnajökulsþjóðgarði í samtali við mbl.is.

„Þetta eru ekki margir, en þeir sem að eru óþægir og eru að fara út fyrir vegina sverta mjög ímynd hinna,“ segir Jóhanna. Hún segir talsverðan mun vera á Norður- og Suðurlandi í þessum efnum og að tíðni utanvegaaksturs sé minni fyrir norðan. Segist hún ekki hafa skýringu á því, en bendir á að mun meira sé um ferðamenn fyrir sunnan.

Utanvegaaksturslaus svæði gefið góða raun

Á norðursvæði þjóðgarðarins hófst vinna fyrir nokkrum árum sem gekk út á að draga úr utanvegaakstri. Fyrsta skrefið var að skilgreina nokkur svæði sem væru alveg laus við utanvegaakstur og átti svo að fjölga svæðum eftir því sem tímanum liði fram. Voru fengnir sjálfboðaliðar til að raka öll hjólför á nokkrum svæðum og svo var því fylgt strangt eftir að engin för væru þar sjáanleg. Með þessu móti segir Jóhanna að fólk hafi í minna mæli álpast til að keyra utanvegar, enda ekki önnur nálæg fordæmi á svæðunum.

Svæðið sem um ræðir og var upphaflega skilgreint nær frá Herðubreiðarlindum að Öskju og Upptyppingum. Seinna var bætt við Krepputungum og núna síðast svæðinu kringum Holuhraun. Jóhanna segir að ekki hafi þurft að fara í viðlíka aðgerðir í Jökulsárgljúfrinu sjálfu, þar sem þar séu betri vegir og afmarkaðri vegaslóðar. „Fólk á erfiðara með að fara út fyrir þá,“ segir hún. Stefnan sé svo að víkka þetta svæði á komandi árum.

Jóhann Katrín Þórhallsdóttir, hálendisfulltrúi hjá Vatnajökulsþjóðgarði.
Jóhann Katrín Þórhallsdóttir, hálendisfulltrúi hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Mynd/Jóhanna Katrín

Telja hálendisvegina jafnvel vera utanvegaakstur

Jóhanna telur að helsta vandamálið sé þekkingarleysi ferðamanna og ákveðinn skilgreiningarvandi. „Margir ferðamenn eru ekki með réttar forsendur,“ segir hún og bætir við að „þeir þekkja bara heima hjá sér að eitthvað sé mjög skýrt skilgreindur vegur og geta ekki farið út fyrir það. Svo hér á landi sjá þeir braut yfir mel og sjá ekki muninn að fara út fyrir þá braut.“ Þannig telji margir hálendisvegina í raun vera utanvegaakstur og ekkert öðruvísi að keyra þá eða næsta nágrenni í kringum þá. Telur hún að fæstir geri sér grein fyrir að sár sem slíkur akstur valdi hverfi mjög treglega.

Árangur af kynningarefni ber strax árangur

Í vor var nýtt kynningarefni unnið af Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Samgöngustofu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Landsbjörgu, Vatnajökulsþjóðgarði og lögreglunni. Jóhanna segir að þar hafi verið unnið einfalt myndrænt kynningarefni á litlu kynningarspjaldi sem sé dreift í flesta bílaleigubíla og til þeirra sem koma með Norrænu. Segir hún árangur af þessu strax farinn að sjást, en auk þess þá hafi landverðir á svæðinu verið duglegir við að bjóða fólk velkomið í þjóðgarðinn og í leiðinni ítrekað reglur um utanvegaakstur.

Spólaði upp utanvegar á Norðurlandi en náðist á Suðurlandi

Nýlega kom upp mál þar sem lítill jepplingur var staðinn að því að keyra utanvegar rétt við þjóðveginn við Hrossaborgir. Jóhanna segir að ökumaðurinn hafi verið að hringspóla og með leikaraskap. Leiðsögumaður á ferðinni varð mannsins var og lét strax vita. Þá tók hann mynd af athæfinu og skrifaði hjá sér númer bílsins. Þjóðgarðsverðir höfðu strax samband við lögregluna sem fann út að um bílaleigubíl var að ræða. Endaði málið með að hringt var í ferðamanninn sem var þá kominn á suðurland og kom hann til lögreglunnar þar sem málið var klárað með sekt.

Jóhanna telur að fjöldi utanvegaakstursbrota í norðurhluta Vatnajökulsþjóðgarði hafi verið …
Jóhanna telur að fjöldi utanvegaakstursbrota í norðurhluta Vatnajökulsþjóðgarði hafi verið um 100 í fyrra. Slíkt á sér þó stað allsstaðar um landið og fjöldi brotanna er því væntanlega margfaldur þeirri tölu. Árni Sæberg

Jóhanna segir að þetta sé dæmi um það samstillta átak sem stofnanir og ferðaþjónustuaðilar séu að vinna í og að það hafi á undanförnum árum skilað góðum árangri í baráttunni við utanvegaaksturinn. Undanfarin ár segir hún að um fimm mál á hverju ári hafi endað á þennan hátt, en að heildarfjöldi mála sé þó mun meiri. Nokkur þeirra eru kláruð á staðnum ef viðkomandi er staðinn að verki. Þannig er jafnvel rætt við fólkið og það látið laga eftir sig og segir Jóhann að nokkur slík mál komi upp á hverju ári. Í heild gerir hún þó ráð fyrir að meira en 100 atvik utanvegaaksturs eigi sér stað á hverju sumri í norðurhluta Vatnajökulsþjóðgarði. Segir hún að lang stærsti hluti þeirra sem brjóti af sér séu erlendir ferðamenn, en hún segir að það geti mögulega helgast af því að ferðamenn á svæðinu séu mest erlendir ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert