Verkfallslögin gilda

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Bandalags háskólamanna (BHM) um að félagsmönnum þess sé heimilt að efna til verkfalls og að ákvörðun gerðardóms ráði ekki kjörum þeirra.

Lögin sem bönnuðu verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM halda því gildi sínu.

Dómur í málinu var kveðinn upp klukkan tvö í dag.

BHM stefndi rík­inu vegna laga­setn­ing­ar, sem var samþykkt á Alþingi hinn 13. júní síðastliðinn, sem bann­ar verk­fallsaðgerðir fé­lags­manna BHM. Málið var þing­fest 19. júní og fór aðalmeðferð í því fram 6. júlí síðastliðinn, en málið fékk flýtimeðferð.

BHM ger­ði þær dóm­kröf­ur að stétt­ar­fé­lög­um inn­an sinna raða yrðu heim­ilt að efna til verkfalls, þrátt fyr­ir verk­falls­lög rík­is­stjórn­ar­inn­ar, og að kjör fé­lags­manna yrðu ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms, eins og lög­in kveða á um.

Ástráður Har­alds­son flutti málið af hálfu BHM en Ein­ar Karl Hall­v­arðsson var til varnar fyrir ríkið. Sím­on Sig­valda­son dæm­di í mál­inu.

Ákveðið var að skipa gerðardóm eftir að Alþingi setti lög á verkföll félagsmanna BHM, sem stóðu í tæpar tíu vikur. Hefur dómurinn frest til 15. ágúst til að ákvarða kaup og kjör félagsmanna.

Að mati BHM fel­ur laga­setn­ing­in í sér ólög­mætt inn­grip í starf­semi frjálsra og lög­legra fé­laga­sam­taka. Bend­ir banda­lagið á að frelsi stétt­ar­fé­laga til að standa að gerð kjara­samn­inga sé varið af 74. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar og að stjórn­völd og lög­gjaf­inn hafi afar tak­markaðar heim­ild­ir til að hafa af­skipti af starf­semi slíkra fé­laga. Með laga­setn­ing­unni hafi ríkið farið út fyr­ir þær heim­ild­ir.

Ríkið hafi einnig brotið gegn rétti aðild­ar­fé­laga BHM þannig að fari í bága við ákvæði 11. grein­ar Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu (MSE), en í því ákvæði seg­ir að mönn­um sé rétt að mynda fé­lög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stétt­ar­fé­lög til vernd­ar hags­mun­um sín­um.

Stefndu almannahagsmunum í hættu

Ríkisstjórnin taldi hins vegar að um brýna nauðsyn væri að ræða. Verkfallsaðgerðirn­ar stefndu al­manna­hags­mun­um og rétt­ind­um annarra í hættu og ríkisstjórninni hefði verið nauðugur einn kost­ur að stöðva þær.

Verkföllin hefðu valdið miklu tjóni á mörg­um sviðum. Viðræður við fé­lög­in hefðu reynst árang­urs­laus­ar og launakröf­ur þeirra væru langt um­fram þær launa­hækk­an­ir sem samið var um við stærst­an hluta al­menna vinnu­markaðar­ins und­ir lok maí­mánaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert