Höfða mál í dag

Ólafur G. Skúlason á von á að málið verði lagt …
Ólafur G. Skúlason á von á að málið verði lagt inn í héraðsdómi í dag. mbl.is/Golli

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, á von á að mál á hendur ríkinu vegna skipunar gerðardóms í kjaradeilu félagsmanna verði lagt inn í héraðsdómi í dag. Þá hefur hann átt tölvupóstsamskipti við formann samninganefndar ríkisins, þar sem fram kemur að af hálfu ríkisins verði málið nú lagt í gerðardóm.

Frétt mbl.is: Segir deiluna fara fyrir gerðardóm

Hjúkrunarfræðingar höfnuðu kjarasamningi við ríkið með miklu meirihluta í atkvæðagreiðslu í gær. Að þeirra mati stenst skipun gerðardómsins ekki verkfallslögin og telja þeir sig eiga rétt á að ganga aftur að samningaborðinu. Þetta segir fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson aftur á móti ekki vera rétt, enda hafi gildi samninganna staðið og fallið með samþykki meirihluta félagsmanna, þrátt fyrir að þeir hafi verið undirritaðir áður. Þá sagði hann jafnframt í samtali við mbl.is í gær að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hefði ekki komið sér á óvart, enda „enginn verið að tala fyrir samningnum“.

Frétt mbl.is: „Hugur fylgdi ekki máli“

Þessu er Ólafur ósammála og bendir á að fimmtán kynningarfundir hafi verið haldnir með félagsmönnum þar sem samningarnir voru kynntir. „Við fórum mjög gaumgæfilega yfir kostina við þessa samninga og tækifærin sem í þeim lágu. Síðan lögðum við þetta bara í dóm félagsmanna,“ segir Ólafur.

Nokkur fjöldi íslenskra hjúkrunarfræðinga starfar hjá starfsmannaleigum erlendis
Nokkur fjöldi íslenskra hjúkrunarfræðinga starfar hjá starfsmannaleigum erlendis mbl.is/Eggert

Stofna eigin starfsmannaleigu

Óformlegur fundur verður haldinn með gerðardómnum í dag, en dómurinn er sá sami og dæmir í kjaradeilu BHM. Þá á hann von á að formlegur fundur verði haldinn í næstu viku þar sem farið verður yfir kröfur hjúkrunarfræðinga.

Ólafur segir nokkurn fjölda íslenskra hjúkrunarfræðinga þegar vinna hjá starfsmannaleigum, m.a. Sólstöðum, sem senda starfsfólk til Noregs. Þá er jafnframt nokkur fjöldi í vinnu hjá Powercare, en samkvæmt heimasíðu leigunnar sendir hún starfsfólk til Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Bretlands. „Ég hef heyrt af því að einhverjir innan hópsins séu að velta fyrir sér að stofna einhverja svipaða starfsmannaleigu á Íslandi,“ segir Ólafur, en getur ekki tjáð sig frekar um málið þar sem ekki sé um eiginlegt málefni félagsins að ræða. 

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra viðraði í gær hugmyndir um ráðningu erlendra hjúkrunarfræðinga til landsins. Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum sagði í samtali við mbl.is í morgun að slíkt hefði verið reynt áður á uppgangstímum fyrir hrun. Það hefði gengið misvel, enda mikilvægt að starfsfólk hafi gott vald á íslensku og manlegum samskiptum. Þannig snúist stór hluti starfs hjúkrunarfræðinga um samskipti við sjúklinga og aðstandendur allan sólarhringinn.

Frétt mbl.is: Misgóð reynsla af erlendu starfsfólki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert