Láta ferðamenn laga til eftir sig

Fjallabak.
Fjallabak. mbl.is/RAX

Utanvegaakstur hefur aukist samhliða fjölgun ferðamanna um hálendið, en oftast er um að ræða bílstjóra sem keyra fram hjá pollum eða sköflum á vegunum eða þegar krækt er fyrir svokölluð þvottabretti. Myndar slíkt slóða utan veganna og ljót för á viðkvæmu landi. Til viðbótar er einn og einn svartur sauður sem spólar utan vegar eða reynir að spæna upp næstu brekku. Reynslan undanfarin ár í friðlandinu að Fjallabaki sýnir að gera megi ráð fyrir því að einn bílstjóri sé gripinn við slíkan verknað á þriggja daga fresti. Brotin eru þó mun fleiri að sögn landvarðar.

Utanvegaakstur eykst jafnt og þétt

Valdimar Kristjánsson hefur unnið sem landvörður á Fjallabaki undanfarin ár og segir hann að utanvegaakstur aukist jafnt og þétt. Segir hann að tugir ökumanna hafi verið staðnir að verki á síðasta ári og höfðu landverðir afskipti af ökumönnum nær daglega það ár. Bæði er þá um að ræða stærri mál og minni háttar utanvegaakstur, sem Valdimar segir að kalli frekar á smá ábendingar frekar en að kæra brotin eða fá fólk til að laga eftir sig.

Láta ferðamenn laga til sjálfa eftir sig

Segir hann að landverðir á svæðinu hafi lengi nýtt sér að ræða við þá sem gripnir eru fyrir athæfið og látið þá laga til eftir sig, t.d. með því að raka til jarðveginn þannig að utanvegaslóðar hverfi. Slíkt hefur að hans sögn gefist vel, enda séu mjög margir sem segist ekki hafa vitað af reglum um utanvegaakstur eða hafi jafnvel ekki gert sér grein fyrir að það var að keyra utanvega. Segir Valdimar að starfsmenn á svæðinu sé margir með hrífur í skottinu til að leyfa fólki að laga til eftir sig í slíkum tilfellum.

Jón Björnsson er yfirmaður friðlandsins, en flutti sig á Fjallabak í ár eftir að hafa verið í fjölmörg ár á Hornströndum. Hann segir talsverð viðbrigði vera að koma á Fjallabak, enda hafi engir bílar verið á Hornströndum. Þótt hann segist vel vita af utanvegaakstrinum á Fjallabaki segist hann hafa gert ráð fyrir enn verra ástandi miðað við þær tröllasögur sem hann hafi heyrt.

Ástand hálendisvega vegna færðar gæti þó haft áhrif á þetta mat hans, en Jón segir að tímabilið sé í raun varla hafið á Fjallabaki enn eftir mikil snjóþyngsli sem hafi tafið opnun svæðisins og umferð bíla.

Vill aukið samstarf friðlandsins og þjóðgarða

Jón horfir jákvæðum augum á það verkefni sem unnið hefur verið innan Vatnajökulsþjóðgarðs þegar kemur að utanvegaakstri, en hann segir þjóðgarðinn vera langt á undan öðrum í þessum málum hér á landi. Segist hann vonast til að svæðin geti unnið saman að verndarverkefni í þessu samhengi á komandi árum.

Aðspurður hvað þurfi að gera á svæði eins og Fjallabaki, þar sem ein mesta umferð ferðamanna um hálendið er á hverju sumri, segir Jón að huga þurfi að fjölda atriða. Mikilvægast er að hans mati að að auka flæði upplýsinga. Þannig sé nauðsynlegt að gera ferðamönnum það alveg skýrt að utanvegaakstur sé bannaður hér á landi.

Gætu stoppað stærstan hluta utanvegaaksturs með auknum mannskap

Segist Jón vera sérstaklega hrifinn af „maður á mann“ nálgun í þessum efnum, en hann segir það hafa gefið góða raun á Hornströndum. Segir hann að best væri ef landverðir gætu rætt við þá sem líklegir væru til aksturs á svæðinu og þar væri besta niðurstaðan ef hægt væri að manna helstu staði þar sem keyrt er inn á friðlandið. „Við gætum stoppað stóran hluta alls utanvegaaksturs á Fjallabaki ef við hefðum mannskap í það,“ segir Jón.

Samningur við ferðamenn

„Flestir sem við stoppum segja að þeir viti þetta ekki,“ segir Jón, en hann leggur til þá hugmynd að allir erlendir einstaklingar sem ætli sér að keyra bíla hér á landi undirriti sérstakan samning t.d. hjá bílaleigum um að þeir hafi kynnt sér reglur um akstur hér á landi. Þar gætu reglur um utanvegaakstur og hámarkshraða á vegum t.d. verið sérstaklega tilgreindar. Segir hann að með þessu megi á einfaldan hátt koma fullri ábyrgð yfir á ferðamennina og koma í veg fyrir tilraunir þeirra til að afsaka sig með að þeir hafi ekki vitað um reglur.

Þá segir Jón að oft sé aðeins hugsað um uppbyggingu svæða, en að það gleymist að taka með í reikninginn rekstrarkostnað og viðhald eftir fyrstu opnun. „Það þarf bæði fjármuni í uppbyggingu og svo til að reka þessa staði,“ segir Jón.

Frostastaðavatn á Landmannaafrétti, en það er hluti af friðlandinu að …
Frostastaðavatn á Landmannaafrétti, en það er hluti af friðlandinu að Fjallabaki. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
Frá Landmannalaugum.
Frá Landmannalaugum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert