Ríkið tilkynni um lokun flugbrautar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

Í bréfi borgarstjóra til innanríkisráðuneytið fer Reykjavíkurborg þess á leit við ríkið að það tilkynni um lokun NA/SV-flugbrautar Reykjavíkurflugvallar í samræmi við samninga sem ríkið hefur skrifað undir. Samtímis verði skipulagsreglur fyrir flugvöllinn endurskoðaðar til samræmis við það.

Innanríkisráðherra lýsti því yfir í bréfi til borgaryfirvalda í apríl að flugbrautinni yrði hvorki lokað né ákvarðanir teknar um hana á meðan verkefnastjórn um könnun á flugvallarkostum undir formennsku Rögnu Árnadóttur hefði ekki lokið störfum.

Í svari borgarstjóri kemur fram að þessi stýrihópur hafi nú lokið störfum og nýr flugvöllur í Hvassahrauni sé talin vænlegasti kosturinn. Þá liggi fyrir áhættumat á fyrirhuguðum breytingum á Reykjavíkurflugvelli þar sem brotthvarf flugbrautarinnar sé talið þolanlegt. Engin öryggissjónarmið mæli því gegn því að tilkynnt verði um lokun flugbrautarinnar. Það hafi verið staðfest af Samgöngustofu.

Samningar ríkis og borgar um Reykjavíkurflugvöll frá 19. apríl og 25. október séu engum skilyrðum háðir og því fari borgin þess á leit við ráðherra að hann tilkynni fyrir hönd ríkisins um lokum flugbrautarinnar.

„Vilji ráðuneytið engu að síður að fyrir hendi sé á SV-horni landsins flugbraut með nefnd stefnu getur ráðuneytið samhliða lokun brautarinnar á Reykjavíkurflugvelli átt samráð við flugrekstraraðila um hvort þeir telji nauðsynlegt að opna sambærilega braut á Keflavíkurflugvelli þar sem slík braut er fyrir hendi,“ segir í bréfinu.

Mikilvægt sé að slíkt samráð tefji þó ekki tilkynningu um lokun brautarinnar á Reykjavíkurflugvelli. Borgarstjóri óskar svara innanríkisráðherra við bréfinu innan mánaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert