Ekki leyst með erlendu starfsfólki

Kristján Þór segir málið ekki verða leyst með ráðningu fólks …
Kristján Þór segir málið ekki verða leyst með ráðningu fólks frá útlöndum, en skoða þurfi alla möguleika við að manna nauðsynlegar stöður. mbl.is/Eggert

 „Það líður engum vel með málið í þessum farvegi, hvorki af hálfu ríkisins né hjúkrunarfræðinga,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra um stöðuna í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við ríkið. Hann kveðst hafa skilning á ósætti þeirra og gerðardómurinn sem málið fer nú í sé neyðarúrræði. „Auðvitað er alltaf best ef menn geta komið sér saman um hlutina í svona stöðu,“ segir Kristján.

Jafnir fyrir gerðardómnum

Hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið í fyrradag með miklu meirihluta. Deilan gengur því til gerðardóms. Þetta er formaður félagsins ósáttur við og telur fyrirkomulagið ekki standast verkfallslög, en fjármálaráðherra hafnar því alfarið.

Frétt mbl.is: „Hugur fylgdi ekki máli“

Hann segir aftur á móti að báðir deiluaðilar hafi jafna stöðu fyrir dómnum og því sé eins sanngjarna niðurstöðu og kostur er í svo erfiðri stöðu. „Dómurinn metur röksemdir hvors um sig, en bæði ríkið og félag hjúkrunarfræðinga eiga möguleika á að fara með sitt mál fyrir dóminn. Í lögunum er einnig áskilnaður um það að ef aðilar koma sér saman um einhverja hluti sé dómnum heimilt að taka tillit til þess við úrskurð sinn.“

Ólafur G. Skúlason er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Ólafur G. Skúlason er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Golli

Erlent starfsfólk engin framtíðarlausn

FJölmargt heilbrigðisstarfsfólk hefur sagt störfum sínum lausum, og vega hjúkrunarfræðingar þar þungt. Aðspurður segir Kristján komu erlendra hjúkrunarfræðinga hingað til lands ekki vera neina varanlega lausn. „Þegar ég svaraði spurningunni um hvort til greina kæmi að fá hingað erlent fólk til starfa sagði ég að auðvitað væri þetta einn af þeim kostum sem við þyrftum að skoða, enda ber okkur að skoða alla kosti í þessari afar viðkvæmu stöðu,“ segir Kristján.

Frétt mbl.is: Misgóð reynsla af erlendu starfsfólki

Hann bendir á að nokkur fjöldi íslensks starfsfólks hverfi reglulega til starfa á erlendri grund og þá hljóti að vera eðlilegt að skoða hvort færi gefist erlendis á að manna nauðsynlegar stöður. Hann vísar því á bug að ráðning erlends starfsfólks hafi ekki verið rædd þegar læknadeilan stóð yfir.

„Vissulega var þetta líka rætt þá. Við erum í þeirri öfundsverðu stöðu að geta sent nema í heilbrigðisgeiranum til náms erlendis. Að sama skapi erum við, höfum verið, og munum alltaf vera með starfsfólk erlendis frá innan vébanda íslensku heilbrigðisþjónustunnar.“

Kristján bendir á að þegar starfi hérlendis bæði erlendir hjúkrunarfræðingar …
Kristján bendir á að þegar starfi hérlendis bæði erlendir hjúkrunarfræðingar og læknar. mbl.is/Eggert

Læknar frá útlöndum starfandi hérlendis

Hann bendir á að erlendir læknar starfi hér á landi líkt og hjúkrunarfræðingar.

„Á sjúkrahúsinu á Akureyri starfar t.a.m. fólk frá Indlandi, Hollandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt og er frábær reynsla af því. Það er einfaldlega veruleiki lífsins og frjáls flæðis vinnuafls að við munum ætíð vera með erlent fólk starfandi hér, bæði í heilbrigðisþjónustunni og víðar,“ segir Kristján. „Almennt er mjög góð reynsla af því heilbrigðisstarfsfólki sem hingað kemur frá útlöndum, líkt og ég veit að reynslan af íslensku starfsfólki í heilbrigðisþjónustu erlendis er mjög góð.“

Hvað næstu skref varðar segir hann ljóst að nú taki gerðardómur við, en sami gerðardómur dæmir í máli hjúkrunarfræðinga og félagsmanna BHM. „Ég held í þá von að þegar deiluaðilar hafa rekið sín mál fyrir dómnum, og hlustað á sjónarmið og röksemdir hvors um sig, getum við fengið niðurstöðu út úr honum sem deiluaðilar uni við sáttari en eftir samninginn sem felldur var á dögunum,“ segir Kristján.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert