Skilgreinir sig sem miðbæjarfyrirtæki

Höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti.
Höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti. mbl.is/Golli

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að bankinn skilgreini sig sem miðbæjarfyrirtæki. Hann vilji hér eftir - sem hingað til - vera í miðbænum eða sem næst honum.

Höfuðstöðvar Landsbankans hafa, svo dæmi sé tekið, verið við Austurstræti í hjarta miðbæjarins síðan fyrir aldamótin 1900. Nú stendur til að reisa nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn við Reykjavíkurhöfn.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, hafi sent bankastjóra Landsbankans bréf þess efnis að bankinn sé velkominn með höfuðstöðvar sínar í bæinn.

„Ég benti Lands­bank­an­um á að við eig­um tals­vert land á besta stað á höfuðborg­ar­svæðinu, það er að segja á Glaðheima­svæðinu, rétt hjá Smáralind,“ er haft eft­ir Ármanni í frétt­inni.

Kristján segir í samtali við mbl.is að Landsbankinn hafi skoðað margar lóðir á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal í Kópavogi, en að lóðin við Austurhöfn hafi verið hentugust fyrir bankinn samkvæmt þeim forsendum sem hann hafi gefið sér.

Landsbankinn mun í ágúst kynna samkeppni, í samvinnu við Arkitektafélag Íslands, um hönnun nýbyggingarinnar. Lögð verður áhersla á að hanna „fallega, vistvæna byggingu sem hægt verður að þróa í takt við breytingar á starfsemi og umsvifum bankans. Byggingin skal vera borgarprýði og falla vel að umhverfinu,“ að því er segir á vef bankans.

Hönnunarsamkeppnin er í tveimur þrepum og verða gögn gerð aðgengileg 17. ágúst. Áætlað er að niðurstöður úr hönnunarsamkeppninni liggi fyrir í febrúar 2016.

Gæti sparað fimm milljarða

Áform bankans hafa sætt harðri gagnrýni, til að mynda á meðal stjórnarþingmanna á Alþingi. Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, vara­formaður fjár­laga­nefnd­ar Alþing­is, sagði til dæmis í samtali við Morg­un­blaðið að áformin væru al­gjör­lega út í hött.

Þá hefur Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, viðrað þá hugmynd að bankinn festi kaup á húsnæði við Urðarhvarf 8 í Kópavogi í stað þess að ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir við Austurhöfn.

Húsið við Urðarhvarf er rúmlega sextán þúsund fermetrar að stærð, sem er svipað og fyrirhugaðar höfuðstöðvar við Reykjavíkurhöfn. Söluverð hússins er 775 milljónir króna og segir Frosti að líklegt verði að teljast að frágangur á húsnæðinu gæti kostað um tvo milljarða.

„Landsbankinn virðist því geta sparað um fimm milljarða með því að kaupa þetta. Hagræðing myndi nást að fullu. Öll starfsemi myndi rúmast á einum stað. Landsbankinn gæti svo selt lóðina fínu við Austurhöfn með góðum hagnaði,“ segir Frosti.

Hér er til sölu ónotað nýtt skrifstofuhúsnæði sem er enn stærra en fyrirhugaðar kr. 8 milljarða höfuðstöðvar...

Posted by Frosti Sigurjonsson on 15. júlí 2015
Afstöðumynd af nýju höfuðstöðvum Landsbankans.
Afstöðumynd af nýju höfuðstöðvum Landsbankans. Mynd/Landsbankinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert