Mörg hundruð hrúgur fjarlægðar

Jóhannes og Björg bændur í Heiðarbæ lengst til hægri ásamt …
Jóhannes og Björg bændur í Heiðarbæ lengst til hægri ásamt dóttur þeirra Steinunni. Mynd/Ari Arnórsson

„Það þarf bara eina fótahreyfingu til þess að sparka þessu niður, við hvetjum fólk til þess að halda þessu niðri,“ segir Ari Arnórsson leiðsögumaður sem var á meðal þeirra sem hreinsuðu upp túristavörður á landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit í gærkvöldi. 

Var vörðunum sparkað niður og efnið flutt í burtu. Að sögn Ara var svæðið sem hrúgurnar þöktu um 300 sinnum 250 metrar að stærð. Alls voru um 10-12 manns að störfum í gær við að fjarlægja hrúgurnar, þar á meðal bændurnir á Heiðarbæ. Að sögn Ara höfðu ferðamenn notað efni úr veginum á svæðinu, meðal annars malbik, til þess að gera hrúgurnar. Efninu var ekið á brott með kerru og dráttarvél. Alls var um að ræða tugi tonna af efni sem notað var í hrúgurnar. 

Ari segir hrúgurnar hafa mikil áhrif á umhverfið. „Það er sárast að sjá hvað er búið að eyða miklum gróðri á svæðinu og hvað þessar hrúgur spretta hratt. Í fyrrakvöld gekk Björg bóndi um svæðið og þá vorum við búin að fella allar hrúgurnar. Nú þegar við mættum í gærkvöld var búið að reisa yfir 100 nýjar. Hraðinn er alveg með ólíkindum.“

„Það vita allir hvað þeir eru að gera“

Ari líkir eyðileggingunni við veggjakrot og segir að um leið og ein hrúga sé á svæðinu fari aðrir ferðamenn að búa til fleiri. „Við hegðum okkur eins þegar við erum í útlöndum. Þá sjáum við hvað heimamenn gera og hermum eftir þeim. Ég hef rætt við marga sem hafa reist svona hrúgur undanfarin 20 ár og það vita allir hvað þeir eru að gera, en þykjast ekki vita það. Þess vegna er ekki nægilegt að leysa þetta með fræðslu. Það væri eins og að krefjast þess að bílaleigur eigi að upplýsa alla ferðamenn um að þeir megi ekki skíta í garða. Það vita allir að þetta má ekki. Það er ekki skylda okkar að tyggja ofan í ferðamenn allt það sem ekki er til siðs að gera hér.“

Eins og munur á málverki og veggjakroti

Þjóðgarðurinn hefur nú látið útbúa tvö skilti sem tákna að það megi ekki gera svona hrúgur. Á morgun verður svo strengt band á milli staura sem á að hindra fólki frá að gera svona hrúgur. „Við bíðum svo spennt og sjáum hvort virkar betur,“ segir Ari.

„Tilgangurinn með því að koma þessu í fjölmiðla er að við hvetjum almenning til þess að halda þessu niðri. Um leið og þetta sprettur upp, þá er það bara ein fótahreyfing. Þessar hrúgur eiga ekkert skylt við vörður. Varða er að minnsta kosti hálf mannhæð og vel hlaðin. Það er engin hætta á að ruglast á hrúgum túrista og á vel hlaðinni vörðu. Það er eins og munurinn á ljótu veggjakroti og málverki. Við hvetjum því alla til þess að taka þátt í að halda þessu niðri,“ segir Ari.

Mynd/Ari Arnórsson
Mynd/Ari Arnórsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert