Ísland er fallegt - myndskeið

Kirkjufell er fallegt!
Kirkjufell er fallegt! Skjáskot/Garðar Ólafsson

Garðar Ólafsson, nemi í Kvikmyndaskóla Íslands, tók nýlega upp myndskeið af Íslandi, sem sýnir mikilfenglega náttúru landsins. „Ég er með dróna en einnig nota ég tækni þar sem mörg hundruð myndum er skeytt saman þannig að þær verða að myndskeiði og þannig færist allt hraðar en það gerir í raun,“ segir Garðar við mbl.is.

Myndskeiðið er alveg magnað, en í lýsingu þess segir Garðar að hann hafi skotið það síðustu mánuði víðs vegar um landið. Fegurð landsins sé einstök og allir ættu að fá tækifæri til að sjá það með eigin augum.

„Það er það, sérstaklega þegar þetta hrapar eða brotnar,“ segir Garðar, aðspurður hvort það sé dýrt að taka myndskeið upp með dróna, líkt og hann gerir. „Stundum þarf maður að kaupa varahluti og þeir eiga það til að virka illa. Græjan sjálf er mjög misdýr, getur kostað allt að þremur milljónum króna.“

Garðar telur að nauðsynlegt sé að kunna eitthvað fyrir sér í kvikmyndatöku til að taka svipuð myndskeið og þetta. „Ég er að eftirvinna þetta, henda inn í klippiforrit og slíkt. Þetta er töluverð vinna.“

Hann byrjaði að taka upp sér til skemmtunar. „Núna er ég farinn að selja klippur. Stefnan er að selja ferðaþjónustufyrirtækjum myndskeiðin.“ Tónlistarmenn hafa haft samband til að nota einstaka klippur við lög.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Garðars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert