Gróft ofbeldi með skærum og rafmagnsbyssu

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Kristján Markús Sívarsson var á mánudaginn dæmdur í tæplega fimm ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir fjölda brota, svo sem fjórar líkamsmeiðingar, ólögmæta nauðung, fíkniefnabrot og umferðabrot. Kristján er þekktur sem annar Skeljagrandabræðranna og er þetta fimmtándi dómur hans, en fyrsta dóminn fékk hann árið 1998, þá átján ára. Auk Kristjáns fengu fjórir aðrir dóma fyrir hlutdeild að nokkrum málanna. Í heild voru ákærur í málinu 20 talsins, en í nokkrum málum var sýknað.

Dæmdur fyrir líkamsárás, ólögmæta nauðung og fjölda annarra brota

Alvarlegustu brotin sem ákært var fyrir voru líkamsárásir, ólögmæt nauðung og frelsissvipting. Í báðum málunum þar sem ákært var fyrir frelsissviptingu var sýknað, en í sömu málum var Kristján sakfelldur fyrir líkamsárásir. Dóminn í málinu má í heild lesa hér.

Grófar líkamsárásir í Kópavogi og Vogum

Lýsingar á brotunum eru mjög grófar, en Kristján var meðal annars fundinn sekur um að ráðist á karlmann á heimili Kristjáns í Vogum á Vatnsleysuströnd og slegið hann ítrekað. Voru tveir 19 ára drengir einnig fundnir sekir um þátt sinn í árásinni, meðal annars með að hafa beitt rafmagnsbyssu á fórnarlambið. Þegar aðalmeðferð málsins fór fram var ákærðu gert að víkja úr réttarsalnum meðan fórnarlambið gaf skýrslu, en hann var aðeins 18 ára gamall.

Þá var Kristján dæmdur fyrir að hafa ráðist, ásamt tveimur öðrum mönnum að manni í Kópavogi sem samkvæmt dómnum átti í samskiptum við barnsmóður Kristjáns. Stakk Kristján manninn ítrekað með skærum og sló til hans. Var hann aftur á móti sýknaður fyrir að hafa sparkað í manninn eða lamið hann með Playstation tölvu. Áverkar á fórnarlambinu voru meðal annars þreifieymsli og bólga á hægra kinnbeini, mar yfir neðra augnloki og augabrún, bólga yfir hægri hluta nefs, nefbrot, roði og eymsli í hálsi, auk þriggja stungusára á hægri upphandlegg og eitt stungusár ofanvert á vinstri upphandlegg. 

Réðst á „vinkonu“ sína

Kristján var einnig fundinn sekur um að hafa ráðist á stúlku sem hann kallaði seinna vinkonu sína. „ Hann viðurkenndi að hann hafi verið fullharðhentur við að ýta brotaþola frá. Hann hafi ekki kýlt brotaþola en hafi aðeins þurft að taka á henni. Fram kom að honum þætti þetta leiðinlegt þar sem brotaþoli væri vinkona hans. Hann hafi verið harðhentur og reiður og í tómu rugli og búinn að gefast upp á öllu á þessum tíma, en hann hafi ekki ætlað að meiða brotaþola,“ segir í dómnum.

Í öðrum lið dómsins var Kristján fundinn sekur um að hafa ráðist að strætóbílstjóra meðan á akstri stóð og slegið hann, þó ekki hafi þótt sannað að hann hafi slegið til bílstjórans í andlitið eða brotið tönn hans við verknaðinn.

Kristján var aftur á móti sýknaður af ákæru um líkamsárás í Hafnarfirði þar sem hann átti að hafa kýlt mann tvisvar í andlitið og sparkað í hann.

Rafmagnsbyssa, kjöthamar og haglabyssa

Auk líkamsárásarbrota og ólöglegrar nauðungar var sakfellt fyrir fjölda annarra brota, svo sem brugg á landa, hvatningu um neyslu fíkniefna til barns sem var 17 ára, varðveislu fíkniefna og ólöglegra vopna, þjófnað úr ÁTVR og fleiri brot. Var meðal annars gerð upptæk rafmagnsbyssa, haglabyssa, kjöthamar og loftskammbyssa.

Langur brotaferill Skeljagrandabræðra

Eins og fyrr segir á Kristján langa sögu afbrota, en hann og bróðir hans Stefán Logi Sívarsson, hafa gengið undir nafninu Skeljagrandabræður, þar sem þeir ólust upp. Hófst afbrotaferill þeirra snemma og árið 2003 voru þeir meðal annars fundnir sekir um alvarlega líkamsárás. Síðan þá hefur brotum bræðranna fjölgað talsvert og var dómurinn á mánudaginn fimmtándi dómur Kristjáns.

Líkamsárásirnar áttu sér allar stað í fyrra.
Líkamsárásirnar áttu sér allar stað í fyrra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert