Lítur út fyrir að geta hrunið á hverri stundu

Eins og sjá má er bjargið að kljúfa sig frá …
Eins og sjá má er bjargið að kljúfa sig frá klettavegggnum. Ljósmynd/Lögreglan á Norðurlandi vestra

Lögreglan á Norðurlandi vestra fylgist vel með þróun mála við Ketubjörg en þar eru miklar sprungur í berginu. Líklegt þykir að hluti bergsins muni kljúfa sig endanlega frá meginlandinu með tíð og tíma. 

„Það virðist vera að bergið sé að skríða fram. Bjargið þarna er að kljúfa sig frá klettaveggnum,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, sem jafnframt er formaður byggðaráðs, við mbl.is.  Hann er sammála blaðamanni að þetta líti út fyrir að geta hrunið á hverri stundu. „Það lítur þannig út.“

Ketubjörg eru tilkomumikil sjávarbjörg tæpa 40 kílómetra fyrir norðan Sauðárkrók, við Skagafjörð. Björgin eru vinsæll ferðamannastaður. „Fólk hefur farnið þarna nálægt því sem er að klofna til að sjá betur yfir. Núna er búið að loka, borði hefur verið settur fyrir og skiltið sem sýndi að þetta sé áhugaverður staður hefur verið tekið niður.“

Stefán segir að verið sé að meta hver næstu skref eigi að vera. „Sveitarfélagið á ekki landið, það er í einkaeigu. Við þurfum við að meta þessi mál í samráði við landeigendur. En það er búið að loka þarna fyrir og enginn fer þarna út eftir.“

Hann býst ekki við miklum látum þegar bergið hrynji á endanum. „Þetta hrynur niður á við og það mun ekki gerast mikið meira en það. Þetta er bara svo mikið magn. Að öllum líkindum hrynur þetta fram á við og aðalhættan er auðvitað fólk, það má alls ekki vera á svæðinu. Þess vegna hafa viðvaranir verið sendar út og staðnum lokað og bent á að svæðið sé varhugavert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert