Mesti kuldi að sumri í áratugi

Sumarið hefur verið kalt fyrir norðan í ár.
Sumarið hefur verið kalt fyrir norðan í ár. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fyrstu þrettán vikur sumars hafa ekki verið eins kaldar í Reykjavík í rúm tuttugu ár og í um þrjátíu ár á Akureyri. Hrapið á sumarhitanum á Akureyri er sérstaklega afgerandi þar sem síðasta sumar var það hlýjasta í 67 ár. Þetta kemur fram á bloggsíðu Trausta Jónssonar, veðurfræðings.

Trausti segir að kuldinn sem hófst á sumardaginn fyrsta hafi nú staðið í þrjá mánuði, fyrstu þrettán vikur sumars að fornu tali. Ber hann saman meðalhita í Reykjavík, á Akureyri og Egilstöðum undanfarin 67 ár.

„Sami tími í fyrra var hlýr í Reykjavík, nærri því eins og 2010 sem er hlýjastur. Við þurfum að fara allt aftur til 1992 til að finna jafnlága tölu og nú - en þó er munur vart marktækur næstu árin á eftir. Nokkrum sinnum var áberandi kaldara en nú, langkaldast 1979 og svo í upphafi línuritsins, 1949, slæmt var líka 1983 og 1989,“ skrifar Trausti.

Útkoma á Akureyri er enn verri en það var síðasta sumar afbrigðilega hlýtt miðað við þetta tímabil. Leita þurfi aftur til 1981 og 1983 til að finna svipaðan kulda og nú, en mun kaldara var 1979 - rétt eins og í Reykjavík. 

Sami tími í fyrra var mjög hlýr á Egilsstöðum - þó ekki eins afbrigðilega og á Akureyri, við finnum nærri því eins háar tölur 1991 og 1984. 

Færsla Trausta Jónssonar um sumarið í sögulegu samhengi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert