Ragnheiði hugnast gjaldtaka á Laugaveginum

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra, segist ekki vera því mótfallin að rukka inn á staði eins og Laugaveginn og jafnvel að skikka ferðamenn til að hafa leiðsögumann með sér. Segir hún að í nýrri stefnumótunar ferðaþjónustunnar sem unnið sé að sé meðal annars horft til fordæma annarra landa eins og Nýja-Sjálands, þar sem ákveðnar reglur gildi um vinsælar gönguleiðir. Þetta kom fram í viðtali við Ragnheiði í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Ákveðin slot og ákveðnir göngustígar

Ræddi Ragnheiður við þáttastjórnendur um þær leiðir sem Nýja-Sjáland hefur farið og sagði hún að þar væru leiðir eins og Laugavegurinn, sem talsvert hefur verið rætt um að sé orðinn mjög fjölfarinn hér. „Hvað gera þeir? Þeir eru með vinsælar leiðir eins og Laugvegurinn, þeir eru bara með betra skipulag en við erum með. Þeir segja það er bara leyfilegt að labba úr þessari átt og þangað og það eru bara ákveðin slot og ákveðnir göngustígar og viðurlög að víkja frá þeim og ef einhver myndi voga sér að skilja eftir rusl þá er það refsivert,“ sagði Ragnheiður.

Sagði hún þetta vera eitthvað sem Íslendingar ættu að gera og spurði þá þáttastjórnandi Ragnheiði af hverju ekki mætti kosta að ganga Laugaveginn. „Nákvæmlega. Ég er ekkert á móti því. Þurfum við að skikka að vera með leiðsögumann, það gæti vel verið,“ svaraði Ragnheiður.

2.300 milljónir á 4 árum

Ragnheiður fór einnig yfir það sem gert hefði verið í ferðaþjónustu síðustu árin og sagði að stórlega hefði verið bætt í fjárveitingar til uppbyggingar í greininni. Það væri þó ekki allt að skila sér eins og búist hefði verið við.

Frá árinu 2011 sagði Ragnheiður að 2.300 milljónir hefðu farið í framkvæmdasjóð ferðaþjónustunnar. Aðeins lítill hluti þess fjármagn hefðu komið úr gistináttagjaldinu og að 70% hefði komið á síðustu tveimur árum eftir að hún tók við ráðherrastól.

Fá fjármuni en framkvæma ekki

Í fyrra var meðal annars bætt við 380 milljónum og var skilyrði að um væri að ræða verkefni sem þyldu ekki bið og að farið yrði strax í uppbyggingu og að öll skipulagsvinna væri fullkláruð. Sagði Ragnheiður að þótt verkefnin hefðu átt að klárast í fyrra, þá hafi í byrjun þessa sumars enn verið 200 milljónir af þessum 380 eftir í sjóðnum.

Var hún spurð út í ástæður þess að ekki hefði meira verið greitt út og sagði Ragnheiður að menn hefðu kennt rigningasumri um og þá hafi vantað verktaka. Menn hafi einnig látið vita að enn væri einhver skipulagsvinna eftir, jafnvel þótt að skilyrði væri að hún væri öll frágengin. Greitt var að hluta til úr sjóðnum við samþykki umsóknar, en að hluta til verður greitt eftir framgangi verkefnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert