Mál BHM gegn ríkinu tekið fyrir 10 ágúst

Þórunn Sveinbjarnardóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar dómur var kveðinn upp …
Þórunn Sveinbjarnardóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar dómur var kveðinn upp í málinu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstaréttarmálið nr. 467/2015: BHM gegn íslenska ríkinu verður flutt 10. ágúst. Það er mat BHM að nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu hafi verið sinnt í verkföllunum og að engin slík vá hafi verið fyrir dyrum að réttlætti svo víðtæka íhlutun í stjórnarskrárvarin réttindi sem lagasetningin er. Þetta segir í tilkynningu frá Bandalagi háskólamanna.

Það er jafnframt mat BHM að standi stjórnvöld frammi fyrir raunverulegri neyðarstöðu sem þeim beri skylda til að aflétta, og verði í því skyni að takmarka mannréttindi, þá leiði stjórnskipuleg meðalhófsregla til þess að slík takmörkun verði að vera eins umfangslítil og skerða mannréttindi eins lítið og framast er unnt.

Stenst ekki að mati BHM

Úrlausn héraðsdóms um að heimila ótímabundna sviptingu samningsfrelsis og verkfallsréttar fjölda stéttarfélaga sem ekki einu sinni voru í verkfalli stenst að mati BHM ekki slíka stjórnskipulega meðalhófsreglu.

Alþingi setti lög á verkföll BHM 13. júní sl. Lög nr. 31/2015 ganga í meginatriðum út á það að 18 aðildarfélögum BHMer óheimilt að efna til verkfalls og að kjör félagsmanna þessara félaga verði afráðin með ákvörðun gerðardóms samkvæmt lögum. Héraðsdómur kvað upp dóm þann 15. júlí sl. að ríkinu hefði verið heimilt að setja lög á verkföll BHM. BHM áfrýjaði strax til Hæstaréttar og var málið þingfest þann 17. júlí sl. og fékk sömu flýtimeðferð þar og fyrir héraðsdómi. Flýtimeðferð er ekki veitt nema brýn þörf sé á skjótri úrlausn og varði stórfellda hagsmuni.

Brot á stjórnarskrá

Hæstiréttur hefur staðfest að hæstaréttarmálið nr. 467/2015: BHM gegn íslenska ríkinu verði flutt fyrir Hæstarétti mánudaginn 10. ágúst n.k. kl. 09.00.

BHM telur að lögin standist ekki stjórnarskrá og að þau séu skýrt brot á stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati BHM felur setning laganna í sér ólögmætt inngrip í starfsemi aðildarfélaga BHM sem frjáls og lögleg félagasamtök.

Lögin brjóti gegn 74. gr. stjórnarskrár Íslands og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fela í sér almennt bann við afskiptum stjórnvalda og löggjafans. Þá hafi íslenska ríkið einnig brotið gegn samþykktum ILO, Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98 og gegn 6. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu með lagasetningunni.

Ólögmætt inngrip í verkfallsdeiluna

BHM telur að lagasetningin feli í sér ólögmætt inngrip í verkfallsdeiluna þar sem stjórnvöld sjálf séu annar samningsaðilinn. Dæmi eru um að stjórnvöld hafi gripið inn í kjaradeilur með lagasetningu. Í máli BHM er hins vegar ekki aðeins um stjórnvöld að ræða, heldur einnig annan samningsaðilann.

Samningsaðila sem með framgöngu sinni beitir hinn ofríki með því að knýja sín sjónarmið fram í kjaradeilunni með því að skrifa forsendur niðurstöðu gerðardóms í lög. BHM telur að það standist ekki skoðun að ríkið sem annar samningsaðili, í ljósi þess að það vill ekki ganga að kjarakröfum aðildarfélaga BHM, geti einfaldlega látið banna aðgerðir þess og svo náð fram sínum vilja með lögbundum forsendum.

Engin slík vá var fyrir dyrum að réttlætti svo víðtæka íhlutun í stjórnarskrárvarin réttindi sem lagasetningin er.  Ríkir almannahagsmunir voru ekki í húfi, enda höfðu verkföllin ekki lömunaráhrif á  þjónustu í landinu, þrátt fyrir að sumir hlutar þeirrar þjónustu væru skertir á meðan á verkfalli stóð.

BHM telur að því fari fjarri að nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu hafi ekki verið sinnt á meðan á verkfalli aðildarfélaga stóð. Lögum samkvæmt hafa stjórnvöld úrræði sem geri það að verkum að neyðarástand sem réttlæti bann við verkföllum BHM eigi ekki að geta komið upp. Þannig nær heimild til verkfalls m.a. ekki til þeirra ríkisstarfsmanna sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu.

Er þeim starfsmönnum óheimilt að leggja niður störf í verkföllum. Þá er stjórnvöldum heimilt að kalla starfsmenn, sem eru í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi. Þessum úrræðum laganna hefur ríkið ítrekað beitt í verkföllunum og liggja fyrir tölur um fjölda undanþágubeiðna sem voru samþykktar í verkföllunum.

Ekki hróflað við mati löggjafans

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að ekki verði hróflað við því mati löggjafans að almannahagsmunir og meðalhóf hafi krafist þess að þeim félögum sem ekki voru í verkfalli yrði einnig bannað að fara í verkfall.

Gangi það ekki gegn félagafrelsisákvæði 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár. Það er hins vegar mat BHM að standi stjórnvöld frammi fyrir raunverulegri neyðarstöðu sem þeim beri skylda til að aflétta, og verði í því skyni að takmarka mannréttindi, þá leiði stjórnskipuleg meðalhófsregla til þess að slík takmörkun verði að vera eins umfangslítil og skerða mannréttindi eins lítið og framast er unnt.

Úrlausn héraðsdóms um að heimila ótímabundna sviptingu samningsfrelsis og verkfallsréttar fjölda stéttarfélaga sem ekki einu sinni voru í verkfalli stenst augljóslega ekki slíka stjórnskipulega meðalhófsreglu. Með því að ganga mun lengra en nauðsyn hefði borið til að tryggja þau markmið sem stjórnvöld settu sér hafi verið brotið á stjórnskipulegri meðalhófsreglu.

Gerðardómi er ætlað að úrskurða um laun fleiri þúsunda félagsmanna aðildarfélaga BHM fyrir 15. ágúst nk. Framsetning laga nr. 31/2015 á því hvernig gerðardómur skuli ákvarða laun félagsmanna aðildarfélaga BHM er í hæsta máta ómálefnaleg. Mikilvægt er að niðurstaða Hæstaréttar liggi fyrir áður en gerðardómur úrskurðar um starfskjör þúsunda félagsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert