Beraði kynfæri sín á skemmtistað

Lögreglan handtók ungan karlmann á skemmtistað í Austurstræti í miðborg Reykjavíkur í nótt, en þar hafði hann bæði boðið fíkniefni til sölu og berað kynfæri sín framan í lögreglumennina, í viðurvist annarra skemmtistaðagesta.

Lögreglumennirnir fóru á skemmtistaðinn um klukkan hálf þrjú í nótt. Þegar maðurinn ætlaði að bjóða gestum staðarins fíkniefnin vildi ekki betur til en svo að hann missti niður nokkra skammta af hvítu dufti. Bað hann þá fólk um að hjálpa sér að ná efninu aftur, áður en lögreglan kom á vettvang.

Þegar lögreglumennirnir komu á staðinn og ræddu við manninn, þá beraði hann kynfæri sín framan í þá, og í viðurvist annarra gesta.

Hann var umsvifalaust handtekinn. Í fórum hans var jafnframt hnífur og þá fundust fíkniefni á honum við öryggisleit.

Var hann færður í fangageymslu þar sem hann verður þangað til hægt verður að yfirheyra hann.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að hann þurfi þá að svara fyrir vopnalagabrot, brot á áfengislögum, vörslu og meðferð fíkniefna, brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar og blygðunarsemisbrot.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert